148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

upplýsingar í Landsréttarmálinu.

[11:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Afsakið eitt skiptið enn, en dómsmálaráðherra sagði áðan að gögnin hefðu bara verið send til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er ekki nákvæmt. Skjölin fara í fundagátt eða nefndagáttina þar sem allir þingmenn hafa aðgang að þeim gögnum. Eitthvað var talað um leka í tengslum við það en þessi gögn eru ekki bundin neinum trúnaði þannig að við skulum hafa það alveg á hreinu.

Einnig sagðist ráðherra ekki hafa fengið neinn tölvupóst hvað varðar þessi samskipti, en einmitt í þeim gögnum sem er að finna í nefndagáttinni segir starfsmaður ráðuneytis að hann ætli að taka saman afrit af öllum bréfum strax í fyrramálið og koma þeim til ráðherra.

Það er því ekki satt að ráðherra hafi ekki fengið þessar upplýsingar og þau gögn sem talað er um í tölvupóstinum og það er ekki satt að bara stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi haft aðgang að þessum gögnum.