148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

ættleiðingar.

128. mál
[11:43]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum, umsagnir nánustu fjölskyldu. Frumvarpið er einn liður í því að bæta réttarstöðu þeirra barna sem misst hafa annað foreldri eða bæði. Sá hópur barna er því miður illa varinn þegar slík áföll koma upp í lífi þeirra. Þá spyr maður sig hver gæti réttinda þeirra. Það er þörf umræða sem við þurfum að taka og hefjum við hana í dag.

Í þessari umræðu þurfum við að læra af hinum Norðurlöndunum sem hafa með ýmsum hætti tryggt réttarstöðu þessa hóps barna í lögum og með skýrum verkferlum þegar alvarleg veikindi eða brátt andlát kemur upp og barn lendir í hlutverki aðstandanda. Við verðum að tryggja þjónustu við börn í því hlutverki innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og stjórnsýslunnar og upplýsa þau um réttarstöðu sína. Við þurfum t.d. að gera þeim grein fyrir réttaráhrifum ættleiðingar en við ættleiðingu breytast tengsl við stórfjölskylduna samkvæmt lögum og erfðaréttur breytist einnig. Það er grunnatriði að barn fái að halda tengslum, uppruna og séreinkennum þótt nýtt fólk komi inn í líf þess.

Þau eru fjölmörg atriðin sem þarf að fara yfir til að tryggja jafnræði í réttarstöðu barna sem misst hafa annað foreldri. Því ákváðum við að leggja fram frumvarp um breytingu á einu afmörkuðu atriði sem snýr að ættleiðingu barna sem misst hafa annað foreldri eða bæði. Þá er komið fram á þinginu frumvarp um að barnalífeyrisþega verði heimilt að óska eftir viðbótarbarnalífeyri vegna sérstakra útgjalda, sem er einnig mikilvægt mál. Vinnan við að jafna réttarstöðu umrædds hóps barna mun svo að sjálfsögðu halda áfram.

Með því frumvarpi sem við ræðum eru lagðar til breytingar á 7. og 11. gr. laga um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum. Breytingarnar eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er lagt til að ef sótt er um ættleiðingu barns sem misst hefur annað foreldri sitt eða bæði, hvort sem um er að ræða frum- eða stjúpættleiðingu, skuli leita umsagna nánustu fjölskyldu látins foreldris barnsins eða þeirra beggja ef bæði eru látin. Í öðru lagi er lagt til að í þeim tilvikum þar sem barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla eindregið með ættleiðingunni skuli þó leita umsagnar nánustu fjölskyldu ef annað foreldri er látið eða bæði.

Markmið frumvarpsins er að tryggja að ekki sé unnt að rjúfa varanleg tengsl barns við fjölskyldu látins foreldris eða foreldra séu báðir foreldrar látnir án nokkurrar aðkomu nánustu ættingja þess foreldris eða þeirra foreldra. Í umræðu um ættleiðingu barna hafa verið uppi sjónarmið um að hún eigi að vera háð ströngum skilyrðum, enda er ættleiðing í eðli sínu verndarúrræði fyrir barnið. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með fullgildingu Íslands árið 1992 á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989 og síðar lögfestingu samningsins með lögum nr. 19/2013 og aðild Íslands að Haag-samningnum frá 1993, um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa, hefur verið tekin afstaða til þess hvernig þörfum barnsins verði best þjónað í því sambandi. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að barni sé almennt fyrir bestu að alast upp hjá foreldrum sínum eða fjölskyldu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að reynt sé að tryggja barni fullnægjandi umönnun í heimalandi sínu til að tryggja tengsl barns við uppruna sinn og menningu. Talið er að milli 40 og 50 börn undir 18 ára aldri missi foreldra sína árlega hér á landi. Auk foreldramissis bíður þeirra oftar en ekki að tengsl rofni við nánustu fjölskyldu hins látna foreldris og við uppruna sinn.

Í 7. gr. laga um ættleiðingar er kveðið á um samþykki þess sem fer með forsjá barns eða sérstaks lögráðamanns. Í 4. mgr. 7. gr. er kveðið á um að veita megi leyfi til ættleiðingar þrátt fyrir að samþykki samkvæmt 1. eða 2. mgr. greinarinnar skorti ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt. Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um ættleiðingar kemur fram að ákvæðið eigi ekki við um stjúpættleiðingar. Á hinn bóginn á ákvæðið við í þeim tilvikum þar sem barn, sem misst hefur foreldri eða jafnvel bæði, er sett í fóstur. Slíkt barn má ættleiða án samþykkis forsjárforeldris. Hvergi er vikið að því að leita skuli samþykkis eða umsagnar nánustu fjölskyldu foreldris eða foreldra í þeim tilvikum. Þá er kveðið á um í 11. gr. laga um ættleiðingar að leita skuli umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns, ef unnt er, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Á það bæði við um frum- eða stjúpættleiðingu. Þannig eru engin ákvæði um hvað gera skal ef sótt er um ættleiðingu barns, frum- eða stjúpættleiðingu, sem misst hefur annað foreldri sitt eða jafnvel bæði. Af því leiðir að hægt er að frum- eða stjúpættleiða barn sem orðið hefur fyrir slíkum missi án þess að leitað sé umsagnar nákominna ættingja í fjölskyldu hins látna foreldris.

Hvorki í 7. né 11. gr. laganna er gerð krafa um að leitað skuli umsagnar nánustu fjölskyldu látins foreldris í tilviki frum- eða stjúpættleiðingar eða nánustu fjölskyldna beggja foreldra í tilviki frumættleiðingar þegar báðir foreldrar eru látnir. Að sama skapi er ekki gert ráð fyrir að leita umsagnar nánustu fjölskyldu í þeim tilvikum þegar barn, sem misst hefur foreldri eða jafnvel báða foreldra, hefur verið sett í fóstur og fósturforeldrar sækja síðar um leyfi til ættleiðingar. Til að tryggja hagsmuni barnsins og rétt þess til uppruna síns, fjölskyldu og persónueinkenna er í frumvarpi þessu mælt fyrir um aðkomu nánustu fjölskyldu látins foreldris eða foreldra séu báðir foreldrarnir látnir áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Það er síðan sýslumanns í samræmi við ákvæði 1. gr. laganna að meta heildstætt allar aðstæður, umsagnir og vilja aðila. Til að gæta samræmis er með frumvarpi þessu áréttað að slík umsögn þurfi einnig að liggja fyrir ef barn hefur verið í fóstri hjá umsækjendum og hagir þess mæla að öðru leyti eindregið með því að það verði ættleitt. Verði frumvarpið að lögum telja flutningsmenn að um sé að ræða réttarbót á réttarstöðu barna.

Undir þetta frumvarp skrifar sá sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Andrési Inga Jónssyni, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Guðjóni S. Brjánssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Ólafi Ísleifssyni, Bergþóri Ólasyni, Silju Dögg Gunnarsdóttur, Sigurði Páli Jónssyni, Jóni Steindóri Valdimarssyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

Ég óska eftir góðri samvinnu þingmanna við þinglega meðferð málsins og að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr. Ég vona að við getum átt gott samstarf um að tryggja þessum hópi barna sjálfsögð réttindi sín og að þau haldi fókus áfram á málefnum sínum til að tryggja réttarstöðu þeirra.