148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:07]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni. Hún spyr hvort ég telji að málsmeðferð hafi verið viðunandi hvað þennan aldursflokk varðar, þennan viðkvæma flokk barna og ungmenna sem koma hingað til Íslands. Þó að vissulega hafi verið gerðir góðir hlutir eftir bestu getu tel ég að við þurfum að gera betur í þessum málaflokki til að tryggja réttindi barnanna og uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Ég tel, og það er kannski rétt að koma því líka á framfæri, að þetta frumvarp mitt sé til þess að tryggja sérstakt móttökuheimili fyrir börnin, þannig að þau fái að vera í friði og fái viðunandi þjónustu sem þeim sæmir og þeim ber að fá; séu ekki innan um fulltíða einstaklinga, ókunnugt fólk o.s.frv. Ég trúi því að þetta frumvarp muni skerpa á þeim móttökum sem þessi aldursflokkur þarf.

Ég vil líka minna á að lögin um útlendinga, sem hér var þverpólitísk sátt um, eru ekki klöppuð í stein. Það eru lög sem eiga að geta tekið breytingum. Við eigum að vera óhrædd við það, einmitt í þessum málaflokki, sem tekur svo miklum breytingum, sem svo mikil gerjun hefur verið í, að leyfa okkur að betrumbæta þau lög og bæta með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við höfum undirgengist og til að vernda viðkvæmustu hópana sem hingað koma.