148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi Fjármálaeftirlitið og þær almennu athugasemdir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fært fram. Þær hafa í aðra röndina snúið að mikilvægi þess að Fjármálaeftirlitið væri sjálfstætt, vel fjármagnað og gæti sinnt sínu eftirlitshlutverki á þeim grundvallarforsendum að vera faglega sjálfstætt og til þess bært í mannskap og sérfræðiþekkingu og fjármagni að sinna sínu hlutverki. Ég hef litið þannig á að athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi einkum minnt á mikilvægi þessa.

Ég tel að Fjármálaeftirlitið sé vel í stakk búið til að taka á sig þær viðbótarskuldbindingar eða -kröfur sem fylgja þessu frumvarpi. Varðandi afleiðuviðskipti almennt tel ég að fyrir því megi færa rök, og ég hef skrifað um það sjálfur áður, að það sé gríðarlega mikilvægt að við höfum gott yfirlit yfir stöðu afleiðuviðskipta í landinu sem geta haft þau áhrif að safna upp áhættu í kerfum hjá okkur þannig að það geti jafnvel myndast keðjuverkandi áhrif sem geta valdið miklum óstöðugleika ef ákveðnar aðstæður skapast. Fyrir t.d. hlutabréfamarkað getur skipt miklu máli að fyrir liggi slíkt yfirlit ef mikið er um skortstöður í hlutabréfum, og það eykur gagnsæi á verðbréfamörkuðum, svo ég nefni dæmi um afleiður sem getur verið mikilvægt að upplýsingar séu gefnar um. (Forseti hringir.) Það er kannski grundvallaratriðið með þessu frumvarpi, að auka gagnsæi og yfirsýn.