148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vilji menn komast að raun um það hversu algeng afleiðuviðskipti hafa verið hér í hagkerfinu mundi ég telja að það væri langlíklegast að viðskiptabankarnir hafi verið mótaðilar í slíkum viðskiptum. Það er erfitt að ímynda sér að slík áhætta hafi verið tekin af öðrum en stóru viðskiptabönkunum á sínum tíma. Það var vissulega töluvert um afleiðuviðskipti hér á árunum fyrir hrun og afleiðuviðskipti geta verið mjög eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi margra fyrirtækja til þess að takast á við áhættu í rekstrinum.

Ég geri ráð fyrir því að ef Fjármálaeftirlitið mundi leggja sig eftir því væri hægt að kalla eftir upplýsingum um það hversu umfangsmikil sú áhætta var. En að jafnaði auðvitað spegla viðskiptabankarnir þeirri áhættu eitthvert annað og kerfið tryggir sig innan frá. Hér er um að ræða Evrópureglugerð sem meðal annars kveður á um að menn þurfi að koma upp þessum sérstöku mótaðilum og skrá og menn meta það svo, eins og ég get um í framsögu minni, að ekki sé líklegt vegna smæðar markaðarins að slík starfsemi fari af stað sérstaklega hér á landi í kjölfar þessa máls.