148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að þetta var áhugaverð umræða sem snerist að verulegu leyti um framsalsheimildir að stjórnarskrá en þó líka um efnisatriði málsins. Ég vil ítreka það sem ég tók fram í andsvari, að þótt ekki sé gert ráð fyrir að mótaðilar í afleiðuviðskiptum eða þeir sem reka afleiðuviðskiptaskrá hefji starfsemi hér á landi munu tilkynningar engu að síður geta átt sér stað og munu gera það rafrænt á netinu.

Varðandi Evrópuvinkilinn í málinu vil ég taka fram að ég tel alveg skýrt í íslenskum rétti að það séu heimildir til að framselja með afmörkuðum og skýrt skilgreindum hætti vald til alþjóðlegra stofnana í þágu alþjóðasamstarfs sem Ísland á aðild að. Þetta er ákveðin grundvallarregla. En síðan hefst alvöruumræðan þegar menn fara að ræða hvað sé afmarkað, hvað sé takmarkað, hvað sé meiri háttar og hvað minni háttar framsal o.s.frv. Ég held að það muni ekki breyta miklu um þá umræðu í framtíðinni þótt við segðum í stjórnarskrá og þar væri lögfest heimild til minni háttar framsals valds í afmörkuðum málum til alþjóðastofnana sem Ísland ætti aðild að, jafnvel þótt við færum þá leið að segja að þegar um meiri háttar framsal væri að ræða þyrfti samþykki 3/5 þingsins eða eitthvað álíka, með sambærilegum hætti og Norðmenn hafi ákveðið að gera, vegna þess að meira að segja þar tekst mönnum að gera ágreining um hvað séu meiri háttar mál og hvað minni háttar.

Það gildir alveg það sama um stjórnarskrána og alla aðra löggjöf. Við viljum að lögin séu skýr og skiljanleg fyrir alla Íslendinga. En það kemur ekki í veg fyrir að við þurfum á dómstólum að halda til að útkljá alls konar ágreining. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að jafnvel þótt við settum í stjórnarskrá skýra framsalsheimild yrði það í besta falli til þess að við tækjum dýpri umræðu um hvernig við teldum að gildandi réttur væri og hvort við vildum mögulega þrengja að þeim heimildum, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vék að í umræðunni fyrr í dag, um að fram hefðu komið á undanförnum árum tillögur þar sem væru settir þröskuldar fyrir framsalsheimildum, bæði héðan frá þingnefndum og frá stjórnlagaráðinu. Það er því ekki sjálfgefið þótt slíkt ákvæði færi í stjórnarskrá að þar yrðu heimildir útvíkkaðar. Ég bara lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi enga ástæðu til að útvíkka heimildirnar eins og þær hafa verið túlkaðar fram til þessa til framsals.

Þetta er dálítið önnur umræða en sú sem ég vék að stuttlega, sem snýst um að við stöndum núna frammi fyrir því ítrekað, í hverju málinu á eftir öðru, það er nánast orðinn árlegur viðburður, að Evrópusambandið krefst þess þegar við tökum upp Evrópgerðir, tilskipanir eða reglugerðir, að við Íslendingar fellum okkur við að sæta boðvaldi, úrslitavaldi, sektarákvörðunum eða með öðrum hætti skipunum frá alþjóðastofnunum sem Evrópusambandið hefur komið sér upp en við eigum enga aðild að. Það er mun alvarlegra mál vegna þess að þar er í raun og veru vegið að grunnstoðum EES-samningsins, sem er tveggja stoða kerfið sem við höfum rætt.

Mér finnst orðið tímabært að við tökum það til alvarlegrar skoðunar á þinginu hver staða EFTA-ríkjanna sé á grundvelli EES-samningsins þegar slíkar kröfur eru gerðar af hálfu Evrópusambandsins. Mjög fljótt á litið sýnist mér að það séu í raun og veru ekki kröfur sem samrýmast grunnhugsun EES-samstarfsins. Það eitt og sér ætti að duga til að þvinga í sérhverju tilviki fram tveggja stoða lausn. Okkur hefur tekist það í sumum málum. Það á t.d. við um regluverk sem snertir fjármálamarkaðinn. Þar höfum við smíðað sérlausnir eftir mjög langt samningaferli við Evrópusambandið. En síðan erum við með önnur dæmi þar sem mun meiri tregða mætir okkur. Ekki hjálpar það þegar samstarfsþjóðir okkar EFTA-megin í samstarfinu hafa ákveðið að láta undan áður en við höfum komist að niðurstöðu. Þá stöndum við ein eftir með kröfuna um að byggt verði á tveggja stoða kerfi.

Þetta er ekki aðeins alvarlegt út frá stjórnskipulegu sjónarhorni og vegna þess að með því er grafið undan grunnstoðum EES-samstarfsins heldur líka vegna þess að mikilvægt er að þær stoðir EFTA-megin sem EES-samstarfið hvílir á séu sterkar, séu ekki skildar eftir út undan og látið eins og þær séu eitthvert aukamál og menn láti sér í léttu rúmi liggja hvernig þær stoðir þróast, styrkist innan frá vegna aukinna verkefna, að á sama tíma og Evrópusambandið er að koma á fót nýjum stofnunum eða fela eldri stofnunum aukin verkefni leyfi það sér að beita því sjónarmiði gagnvart EFTA-ríkjunum að engin ástæða sé til að láta EFTA-stoðirnar glíma við sömu verkefni. Þetta er eitt og sér gríðarlega alvarlegt og bætist í raun við þann vanda sem við glímum nú þegar við sem er hversu fá ríki standa að EFTA-stofnununum EFTA-megin.

Því vildi ég koma á framfæri vegna þess að mér finnst verkefninu ekki hafa verið gefinn nægur gaumur. Ég verð var við það í hverju málinu á eftir öðru að ákveðin þróun á sér stað sem við verðum að bregðast við. Mér finnst utanríkisþjónustan og einstök fagráðuneyti hafa staðið sig ágætlega í því að spyrna við fótum og fara fram á sérstakar lausnir en við sjáum aukna tregðu Evrópusambandsmegin og kannski vaxandi eftir Brexit, þar sem allir verða að falla í sama mótið og engar undanþágur eru samþykktar. Menn fara einfaldlega aftast í röðina ef þeir fara fram á sérlausnir.

Við erum með slík mál uppi núna. Þess vegna er þetta mál sem er mjög raunhæft að gefa gaum strax á þessu þingi. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við tökum það til frekari og ítarlegri skoðunar í framhaldinu.