148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

44. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir andsvarið. Hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu mikilvæg atriði eins og þetta með ferðakostnað þeirra sem þurfa að sækja sér þjónustu um langan veg. Að einhverju leyti er komið til móts við einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa að sækja sér þjónustu að heiman og um langan veg þá fyrst og fremst til Reykjavíkur, í nokkrum tilfellum á aðra staði. En það dugar skammt til þess að mæta þeim óþægindum og kostnaði og tíma sem þetta tekur. Eins og við þekkjum er t.d. í Reykjavík oft mjög erfitt að finna sér samastað fyrir einstaklinga, ég tala nú ekki um ef um fjölskyldur er að ræða.

Þarna þarf okkar góða tryggingakerfi að taka á sig rögg og koma til móts við landsbyggðarfólk sem upplifir það að þjónustan sé þverrandi á heimaslóðum. Við megum ekki láta það á okkur sannast að kippa fótunum undan landsbyggðinni á þennan hátt án þess að nokkuð komi á móti og fjárhagslegur stuðningur til þess að sækja sér þjónustu er þar lágmark.