148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:56]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F) (andsvar):

Ég verð að þakka hv. þingmanni fyrir að benda mér á þetta. Það er náttúrlega alveg kostulegt að hér sé hægt að setja menn í fangelsi fyrir að bera nöfn sem líkjast of mikið nöfnum annarra. Ég bý sem betur fer ekki við það að það séu of margir sem heiti Alex hérna á Íslandi. Hv. þingmaður kom inn á áðan að við hefðum mögulega verið að skapa hérna einhvers konar herraþjóð. Ég verð nú að viðurkenna, ég veit ekki hvort það er dökka skeggið eða nafnið Alex, að þegar fólk hittir mig í fyrsta skipti þá er mjög oft töluð enska við mig. Það gæti verið eitthvað til í þessu hjá hv. þingmanni að við séum að útiloka útlendinga og það hefur verið bent á það að útlendingar sem bera erlend nöfn eigi oft mun erfiðara að fá svar við atvinnuumsóknum. Þannig að ég get alveg verið sammála mörgum sem hafa talað hérna. Við þurfum að taka þessar reglur til endurskoðunar. En um leið er það ekki hlutverk Barnaverndarstofu að fara að sýsla um slík mál, nógu alvarleg mál er Barnaverndarstofa yfirleitt að glíma við annars.

Þessi lög þurfa endurskoðunar við. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mæla fyrir frumvarpin og vekja máls á þessu. Um leið var komið inn á það hvort þingheimur hefði hreinlega ekkert annað að gera. Það er bara ekki rétt. Hér hef ég setið núna þessa viku og orðið vitni á því að hér er ótrúlega duglegt fólk og skipuleggur sig vel. Þeir sem hafa getað skipulagt sig þannig að geta tekið þátt í þessum umræðum, þeir gera það.