148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

efnahagsmál og íslenska krónan.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hóf mál sitt á að segja að nú væri ekki hægt að hækka laun, það væri upphaf einhvers vandamáls. En staðreyndin er sú að á Íslandi hafa laun hækkað á síðastliðnum fjórum til fimm árum um u.þ.b. 40% og kaupmáttur vaxið langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndum eða nokkru Evrópusambandsríki svo dæmi sé tekið. Þegar við höfum tekið út jafn mikla kaupmáttaraukningu og hækkað laun jafn mikið og á við undanfarin ár er ekki nema von að menn komi að þeim tímapunkti sem nú virðist vera að renna upp, að erfitt sé að halda áfram á sama hraða. Það þýðir ekki að það sé eitthvað að gjaldmiðlinum. Íslenska krónan hefur vissulega styrkst, en það er einmitt hlutverk gjaldmiðilsins að sveiflast í takt við það sem er að gerast í hagkerfinu. Þannig má segja að sterkari króna endurspegli það sem hefur verið að gerast hér, aukinn hagvöxt, stórfelldan uppgang ferðaþjónustunnar. Í stað þess að við tókum á móti hálfri milljón ferðamanna fyrir tíu árum tökum við á móti tveimur og hálfri milljón. Þetta eru breytingar. Það eru grundvallarbreytingar á samsetningu efnahagslífsins á Íslandi. Við þær aðstæður er ekki við öðru að búast en að gjaldmiðillinn styrkist — og það er einmitt hans hlutverk. Enda hefur Seðlabankinn sagt: Það er ekki nema von að krónan styrkist, hún er að gera nákvæmlega það sem við ætlum henni að gera.

Hér er haldið áfram með að grunnvandamálið sé gengi krónunnar. Ég er einfaldlega ósammála því. Ég held að krónan hafi sinnt hlutverki sínu mjög vel, bæði í hruninu þegar samkeppnishæfni landsins gerbreyttist nánast á einni nóttu og eins núna. Það hefði verið til skaða ef krónan hefði ekki styrkst við þær breytingar sem eru að verða.

Ég vek athygli á því, af því að hv. þingmaður segir að þessi stjórn peningamála eða efnahagsmála gangi ekki upp með íslensku krónuna, að hér hefur verðbólgan verið lítil fjögur ár í röð og raunvextir á Íslandi, raunvextir húsnæðislána, líklega aldrei lægri.