148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að taka þetta mál upp og tek undir lokaorð hans um að mikilvægt sé að bregðast við. Ég vil þó segja að það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það eru engar skammtímalausnir í húsnæðismálum. Við verðum alltaf að horfa til langs tíma. Í því sambandi má minnast á að margar af þeim aðgerðum sem hv. þingmaður vitnaði til eru tilkomnar vegna laga sem sett voru á þarsíðasta kjörtímabili. Það tekur alltaf tíma þegar ráðist er í aðgerðir að koma þeim í framkvæmd. Þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé haldið á spöðunum og að tekin sé regluleg umræða hér í þingsal.

Það er mikilvægt að huga að stefnumótun í húsnæðismálum til langs tíma sem byggir á rannsóknum og áætlunum til langs tíma. Húsnæðismál eru samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga. Húsnæðisáætlanir eru lykilatriði, sem og greiningar á húsnæðismarkaði. Húsnæðisáætlanir verða auðvitað að taka mið af þessum greiningum.

Skýrslan sem vitnað var til hér leiðir í ljós mikla þörf á uppbyggingu húsnæðis og uppsafnaðan skort miðað við ákveðnar forsendur. Mikilvægt er að fjölgun íbúða næstu árin sé bæði mikil og stöðug enda viljum við ekki að sveiflur síðustu tveggja ára á húsnæðismarkaði endurtaki sig. Stjórnvöld munu áfram styðja við uppbyggingu almenna íbúðakerfisins með stofnframlögum. Þar er um að ræða hagkvæmar íbúðir fyrir þá hópa sem nú búa við minnst húsnæðisöryggi, þ.e. tekjulægri hópa á leigumarkaði. Auka þarf fjármagn til að byggja fleiri íbúðir fyrir þessa hópa.

Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga eru tæki til að tryggja að uppbygging sé stöðug og í takt við þarfir landsmanna. Það er mikilvægt að öll sveitarfélög landsins vinni húsnæðisáætlun, en það mun auka fyrirsjáanleika á húsnæðismarkaði og byggingarmarkaði. Á grunni þessara húsnæðisáætlana, sem á að tengja við þær greiningar sem Íbúðalánasjóður vinnur, þurfa að fylgja aðgerðir, eins og auknar lóðaúthlutanir og fleira. Þær verða að vera í takt við húsnæðisáætlanir og þá þörf sem verður. Ég held að við munum sjá mestu breytinguna þegar sveitarfélög og ríki fara að geta unnið meira saman, þá munum við væntanlega sjá auknar lóðaúthlutanir í takt við húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna.

Eins og fram kom í ályktun Íbúðalánasjóðs í síðustu viku mun sjóðurinn vinna tillögur í samstarfi við ráðuneyti húsnæðismála að leiðum til að stuðla að aukinni uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni, en landsbyggðin hefur setið algjörlega eftir og markaðsbrestur er víða um land þegar kemur að nýbyggingum og fjármögnun íbúðarhúsnæðis.

Skipulags- og byggingarlöggjöf er á sviði annars ráðuneytis en húsnæðismála. Má kannski segja að það sé eiginlega einsdæmi að byggingarmálin séu ekki á hendi sama ráðuneytis og húsnæðismál, vegna þess að í öllum nágrannalöndum okkar er það svo að húsnæðismálin og byggingarlöggjöfin, eða reglugerðin og annað sem tilheyrir því, eru undir sama ráðuneytinu vegna þess hve mikilvægur og stór þessi málaflokkur er. Það er umræða sem við þurfum líka að taka til lengri tíma.

Það er mikilvægt að ná samstöðu um hvernig við getum breytt byggingarlöggjöf til að þær kröfur sem réttilega eru gerðar til húsnæðis tefji sem minnst fyrir uppbyggingu hagkvæmra íbúða þannig að hægt sé að ná fram eins mikilli hagkvæmni og kostur er. Byggingarreglugerð hefur nokkrum sinnum verið endurskoðuð hér á landi. Í nokkrum nágrannalöndum okkar er hún í sífelldri endurskoðun. Þetta er ein af þeim reglugerðum sem endurskoðuð er ár frá ári vegna þess að þetta er lifandi löggjöf og hana þarf að endurskoða.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara aðeins betur ofan í ákveðna þætti hérna, en því miður leyfir tíminn það ekki. Það þarf auknar fjárveitingar inn í almenna íbúðakerfið en þó er það ekki hugsað þannig að það leysi húsnæðisskortinn. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að tryggja þeim sem hafa lægri tekjur aðgengi að húsnæði.

Við þurfum að efla húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, efla greiningar Íbúðalánasjóðs og láta það vinna saman. Þá fara sveitarfélögin að auka lóðaúthlutanir í samræmi við húsnæðisáætlanir sem gerðar eru á greiningum sem hægt er að treysta. Í því sambandi stendur til að leggja fram frumvarp á Alþingi sem auðveldar Íbúðalánasjóði að afla gagna.

Við þurfum að lækka byggingarkostnað. Við þurfum líka að horfa á landið allt, eins og ég kom inn á áðan, vegna þess að það verður að fara að byggja utan höfuðborgarsvæðisins. Staðan úti á landi er að mörgu leyti enn alvarlegri en á höfuðborgarsvæðinu þó að hún sé mjög alvarleg á höfuðborgarsvæðinu.

Ég fagna þessari umræðu. (Forseti hringir.) Megi hún verða sem oftast hér á þingi vegna þess að húsnæðismálin eru allt of lítið til umræðu í íslensku samfélagi og á löggjafarþinginu (Forseti hringir.) í hlutfalli við hversu mikilvæg og hversu stór útgjaldaliður þau eru af útgjöldum heimilanna.