148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegur forseti. Þetta er rosalega áhugaverð umræða. Það er alveg ljóst að eitt af því sem leitt hefur af því ástandi sem skapast hefur um þessi mál er að hér eru nú ansi margir sérfræðingar í þessum málum, í vandanum og greiningum og leiðum til aðgerða. Því ætla ég bara að halda áfram á sömu nótum og ég var áðan, að hvetja ráðherra til aðgerða.

Tíminn er svo naumur að ekki er hægt að fara í neinar ákveðnar umræður um þetta þó að ég tali nú frekar hratt, en það er tvennt sem mig langar sérstaklega að nefna. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um áform varðandi sölu ríkislóða til sveitarfélaga til að byggja upp, af því að þar var talað um að við horfðum mögulega til á þriðja þúsund íbúða þar af þessari eftirsóttu stærð, þ.e. meðalstórra íbúða. Þar er bara verið að tala um höfuðborgarsvæðið. En ég geri ráð fyrir því, ég þekki það ekki nákvæmlega, að sá möguleiki ætti að opnast á landsbyggðinni líka. Það er hitt sem mig langar sérstaklega að nefna, þ.e. vandamálin á landsbyggðinni, en óneitanlega liggur áherslan svolítið á höfuðborgarsvæðinu. Þar er fjöldinn og fallþungi í vandamálunum.

Klárlega er vandinn þó ekki minni á landsbyggðinni. Uppbygging á svæðum sem eru að taka við sér núna í uppganginum sem ferðaþjónustan hefur leitt af sér. Byggingarkostnaður er enn þá hátt yfir markaðsverði. Við þekkjum þau mál. Þess vegna langar mig til að spyrja um annað sem ég hef heyrt. Það er ein leið sem gæti aðstoðað til þess að auka sveigjanleika í útleigu á hluta íbúðarhúsnæðis, a.m.k. á ákveðnum svæðum, þ.e. að draga úr því umstangi og þeirri umsýslu sem fólk þarf að sinna — og nú ræðst ég aftur á regluverkið — vegna þess að það getur aðstoðað marga, annars vegar við tekjuöflun og hins vegar við nýtingu á húsnæði. Í sumum tilfellum býr fólk hreinlega við það að vera í of stóru húsnæði og getur ekki skipt vegna stöðunnar á húsnæðismarkaði. Það væri nokkuð sem hægt væri að grípa til með tiltölulega einföldum hætti og auðvitað með þeirri hliðarverkun að þar skapast leigumöguleiki fyrir einhverja sem þurfa á því að halda.

Ég ítreka að lokum þakkir mínar fyrir þessa umræðu.