148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg ljóst í mínum huga og í rauninni kalla ég eftir því að hæstv. ráðherra komi í lok þessarar umræðu og skýri hvað er átt við með hálendinu. Því hálendi Íslands er ekki bara í miðju landsins, það er víðar. Ef átt er við miðhálendið og þann hluta og við erum að tala um línu frá norðri til suðurs eða öfugt eða frá suðri til austurs er mikilvægt að fá það á hreint.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að undirstrika og taka fram að, ef ég hef skilið hann rétt, að þegar rætt er um að kostnaður geti verið allt að tvisvar sinnum hærri munum við ekki láta það yfir okkur ganga að hann geti verið þrisvar sinnum hærri ef valið stendur á milli línu eða jarðstrengs. Hitt er annað mál að það kann að vera erfitt fyrir sum okkar að kyngja því ef tvisvar sinnum hærri kostnaður leiðir til þess að orkuverð t.d. á Raufarhöfn eða á Akureyri eða annars staðar verði tvisvar sinnum hærra bara fyrir það eitt að koma línunni í jörð frá suðri til norðurs. Það er eitthvað sem við þurfum vitanlega að fá skýringar á og ræða hvort menn séu virkilega sáttir við og búnir að sætta sig við að það verði niðurstaðan. Eða er hugsunin þannig að ef jarðstrengur mun hækka raforkuverð svo og svo mikið til notenda á hinum endanum muni ríkið koma inn í og greiða niður þann kostnað? Þetta er afar mikilvægt. Það er útilokað að við getum sætt okkur við það skilyrðislaust að kostnaður geti verið allt að tvisvar sinnum hærri og sá sem býr við endann komi til með að þurfa að greiða hann.

Ég vil þakka þingmanninum fyrir að tala nokkuð skýrt, ég vona að ég hafi ekki misskilið hann, varðandi þennan tvisvar sinnum hærri kostnað við jarðstrengi, að þar drögum við línuna.