148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég deili algjörlega áhyggjum þingmannsins af því verkefni sem hann er greinilega með fyrir framan sig, þ.e. fara í gegnum orkuverðið og hvernig það skilar sér með mismunandi hætti til neytenda, sér í lagi hvernig þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins hafa farið út úr þessu öllu saman síðastliðin ár. Á sama tíma og þessi mikilvæga vinna fer í gang þá er kallað eftir því út um allt land að orkuöryggi sé aukið, sveitarfélögin álykta og senda okkur bréf og kalla eftir stórauknu orkuöryggi fyrir íbúa og atvinnurekstur.

Í 11. tölulið A-hluta þessarar þingsályktunartillögu segir, með leyfi forseta:

„Við uppbygginguna skal tryggja, eins og kostur er, hagkvæmt flutnings- og dreifiverð til allra raforkunotenda.“

Ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um það að ef hann er hægri höndin í þeirri vinnu sem hann er að fara í og þessi þingsályktunartillaga sé vinstri höndin þá fari sú vinna saman. Það gengur ekki að fara í það að bæta gjaldskrá og gera raforkuverð eðlilegra með annarri hendinni, en stórhækka það svo kannski með hinni. Eins og ég les þessa tillögu þá er það vilji þeirra sem leggja hana fram að fara meira frá raflínum yfir í jarðstrengi. Allt í góðu. Það er sums staðar hægt. En í dag er það þannig, þrátt fyrir að fara eigi í rannsóknir samkvæmt þingsályktunartillögunni, og allir vita það að í langflestum tilvikum er miklu dýrara eða mun dýrara að leggja jarðstreng en loftlínu.

Nú spyr ég hv. þingmann: Verðum við ekki að tryggja það að sú mikilvæga vinna eins og ég skil að hann sé að fara í ásamt fleirum væntanlega og þessi þingsályktunartillaga kallist á en sé ekki andstæður? Það sé ekki þannig (Forseti hringir.) að við förum mögulega að samþykkja eitthvað með þessari þingsályktunartillögu sem mun gera að verkum að öll vinnan sem þingmaðurinn er að fara í verði til einskis?