148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held, alla vega sýnist mér það og vonandi hef ég rangt fyrir mér, að vegna þeirrar stefnu sem hér er verið að bera á borð fyrir okkur séu litlar líkur á því að á næstu mánuðum eða jafnvel á árinu 2018 verði gert mikið í því að tryggja eða bæta orkuafhendingaröryggi. Mér sýnist að það eigi að fara í rannsóknir og gera alls konar úttektir á jarðstrengjum áður en menn fara í alvöruumbætur á því kerfi sem fyrir er. Af því hef ég miklar áhyggjur. Það er óásættanlegt að fyrir þá sem búa við skert öryggi, þá sem búa við það að geta ekki byggt upp atvinnulíf úti á landi svo dæmi sé tekið eða þurfa að borga tugi þúsunda og meira fyrir orkureikninginn en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, að ekkert eigi að gera í því á árinu 2018 heldur bíða bara eftir einhverjum rannsóknum. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst algjörlega óásættanlegt að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt óbreytt á Alþingi (Forseti hringir.) séu líkur á því, segjum bara í það minnsta að hún fari ekki þá (Forseti hringir.) leið sem hv. þingmaður er að tala um, þ.e. að bæta kerfið og skila ódýrari raforku til landsmanna.