148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:14]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að bregðast við ræðu hv. þingmanns þegar hún segir m.a. að 1. töluliður, þ.e. um atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku, sé allt of almennur.

„Flutningskerfi raforku er hluti af grunninnviðum samfélagsins, með sambærilegum hætti og samgöngu- og fjarskiptainnviðir, og ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar.“

Það má vera að þetta sé almennt. En þetta er samt grundvöllur þess að við séum sammála um að þetta sé hluti af grunninnviðum samfélagsins. Á meðan það er svo að það fyrirtæki, Landsnet, sem er falið að byggja upp flutningsnetið hefur ekki getað lagt línu í mörg ár hlýtur að skorta eitthvað á að við séum sammála um að þeir grunninnviðir séu eins mikilvægir og við erum hér að reyna að draga fram.

Varðandi það að þetta sé ekki nægilega ítarlegt: Það er kerfisáætlun sem er ítarleg. Það er hún sem er með framkvæmdirnar niðurnjörfaðar og í hvaða röð. Það er samþykkt af Orkustofnun.

Svo varðandi það að þessir stjórnarflokkar séu það ósammála að það dragi framkvæmdirnar. Við vitum öll að það er auðvitað ekki pólitíkin sem stýrir því að gengið hafi illa t.d. fyrir norðan að byggja upp kerfið. Ef ég vildi Blöndulínu fyrir 2020 get ég ekki sett það inn í þessa þingsályktunartillögu og séð það gerast. Ég held nefnilega að línan sé þar að við þurfum fyrst öll að vera sammála um mikilvægið, svo þurfum við að treysta þeim sem framkvæmir og síðan þurfum við að hafa lög og reglur sem hjálpa okkur að vinna það. Við einblínum kannski stundum of mikið á þriðja þáttinn, við þurfum að ná saman um að þetta séu þeir grunninnviðir sem þurfa að vera til staðar. Vegna þess að í dag er það þannig að þeim gæðum er ekki jafnt skipt. Það hamlar einfaldlega, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel, uppbyggingu atvinnulífs á ákveðnum svæðum vegna þess hvernig þetta kerfi er uppbyggt. Ég held að þingheimur allur sé mjög sammála um og sjái að mjög mikilvægt er (Forseti hringir.) að koma þessu áfram.