148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég tek undir það með honum að ég held að það sé algjörlega ótækt að hér væri hægt að reisa vindmyllugarða sem framleiddu einhverja tugi megavatta og það væri algjörlega fyrir utan rammann. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að setja það inn í rammann.

Ég hafði líka hugsað mér að ræða aðeins við hv. þingmann um stjórnsýsluna á bak við þessa þætti. Ég viðurkenni að ég hef kannski takmarkaða þekkingu á jarðlögum og umhverfismálunum, en stjórnsýsluna hef ég þó töluvert spáð í í kringum þessi mál. Eins og ég fór yfir í öðru andsvari þá er það afstaða mín að það sé eitthvað að í kerfinu eins og það er hjá okkur í dag þegar kemur að því að setja rafmagnslínur, hvort sem þær eru í lofti eða jörð, inn á skipulag og það er búið að fara í gegnum kannski þrjú skipulagsstig sem öll er hægt að kæra. Svo kemur að framkvæmdastiginu, þá þarf aftur að sækja um framkvæmdaleyfi og það er líka hægt að kæra.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja skoðun á þessu. Ef svo er ekki þá er kannski fínt að við förum aðeins að velta því fyrir okkur því ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að svara þessum spurningum í þingsal um hvernig eðlilegt er að halda utan um svona framkvæmdir. Það hefur líka verið rætt hér í umræðunni: Er þetta eitthvað sem á mögulega heima í landsskipulagi? Í það minnsta þurfum við að fara yfir þessa skipulagslegu þætti og ná einhvern veginn betur utan um þá en gert hefur verið á síðustu árum.