148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[19:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og flutningsmanni frumvarpsins, Silju Dögg Gunnarsdóttur, kærlega fyrir ræðu hennar áðan. Hún kom inn á flestar þær vangaveltur sem kynnu að vakna vegna flutnings málsins.

Ég er einn af flutningsmönnum frumvarpsins og svo það sé sagt vil ég taka fram að afstaða mín til málsins hefur ekkert með trúarbrögð að gera. Hér er fyrst og fremst um að ræða að ég tel ekki rétt að ráðast með þessum hætti á nein börn, hvort sem það eru drengir eða stúlkur, og tel að vilji menn láta gera á sér slíkar aðgerðir síðar á lífsleiðinni sé það þeirra mál og þá ákveði þeir það sjálfir.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn að einu í þessu fyrra andsvari mínu, þ.e. hvernig þingmaðurinn sæi fyrir sér að svona mál yrðu höndluð í réttarkerfinu, hvort þau yrðu höndluð sem barnaverndarmál ef eitthvað slíkt kæmi upp, hvort það væru viðurlög einnig á þeim forsendum eða hvort þetta væri fyrst og fremst mál sem væru tekin fyrir á grundvelli almennra hegningarlaga. Ég held að mikilvægt sé að velta því fyrir sér. Eftir því sem samfélag okkar verður fjölbreytilegra kunna að koma upp tilvik þar sem við þurfum að velta fyrir okkur hvort börnum sé hætta búin og hvort grípa þurfi inn í. Þá gæti þetta lent á borði barnaverndarnefnda.