148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

skilyrði fyrir gjafsókn.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að bera fram fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um gjafsóknarmál. Gjafsóknarmál á Íslandi eru myndi ég segja eiginlega bara brandari. Það er með ólíkindum að til skuli vera svo lágur tekjugrunnur að fátækir geti ekki sótt um gjafsókn, ekki einu sinni sárafátækir. Ef um hjón er að ræða er miðað við 125 þús. kr. í tekjur á hvorn einstakling, hjón 250 þús. kr., 3 millj. kr. á ári. Þetta eru 125 þús. kr. en lágmarkslaun í landinu eru 300 þús. kr. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getur þetta verið svona?

Ég veit ekki um neinn sem getur lifað af slíkum tekjum, fólk hlýtur að tóra af tekjum undir þessu. Ef einhver fær gjafsókn út frá þessu viðmiði á hann eftir að ganga í gegnum dómstól gjafsóknarnefndar. Ég kalla gjafsóknarnefnd ekkert annað en dómstól. Það stendur skýrum stöfum í lögum að gjafsókn verði aðeins veitt ef nægilegt tilefni er til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi telja að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.

Það er stórmál að biðja um gjafsókn. Ég hef reynt það. Ég sótti um gjafsókn og það tók mig nær tíu ár að fá hana. Tíu ár, spáið í það. Við hverja var ég að berjast? Tryggingafélag sem á nóg af peningum, fullt af lögfræðingum. Svarið: Nei, þú? Þú ert peð, þú færð ekki gjafsókn. Hvað þurfti ég að gera? Ég þurfti að sanna að gjafsóknarnefnd hefði gert læknisfræðilega vitleysu af því að allt í einu var sú nefnd orðin að lækni og vissi allt um sýkingar. Vitleysan í þessu kerfi er ótrúleg. Ég spyr dómsmálaráðherra hvort hún ætli ekki að gera eitthvað í þessu máli strax.