148. löggjafarþing — 25. fundur,  19. feb. 2018.

greiðslur til þingmanna.

[15:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er tortryggni úti í samfélaginu varðandi þessar greiðslur. Það er að mínu mati mjög óeðlilegt að við ræðum það ekki, jafnvel þó að það þurfi að koma hingað upp í pontu til að ræða þetta. Þetta er viðkvæmt mál. Af hverju er það viðkvæmt? Af því að það er bara verið að gefa örlítinn hluta af upplýsingunum. Við vitum hver ók mest. Við vitum núna hver ók næstmest en við höfum ekki fengið upplýsingar um hver er í þriðja, fjórða og fimmta sæti. Við vitum hver er í sjötta sæti.

Þetta gerir það að verkum að það er verið að teikna upp einhverja mynd af ákveðnum þingmönnum og öðrum ekki. Umræðan er tekin úr öllu samhengi, heimaakstur og heimanakstur, flug og annað. Ég held að við verðum að fá þetta bara allt upp á borðið í staðinn fyrir að vera með þessa leyndarhyggju. Þess vegna óskaði ég eftir að þetta yrði rætt hér og nú í dag.