148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[14:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þessarar leiðréttingar langar mig að ítreka spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra 16. desember sl. Ég sagði reyndar í aðdraganda þess í fyrsta lagi að við hefðum þurft að standa í svokölluðum reddingum vegna þessara laga, þ.e. laga um Landsrétt og laga um dómstóla. Uppsetning á þessu dómstigi hefur verið frekar klúðursleg í marga ef ekki alla staði. Á þeim tíma sagði ég, með leyfi forseta:

„Ég vildi í því ljósi spyrja hvort ráðherra sjái fyrir sér að það verði fleiri bráðabirgðalög sem við munum þurfa að taka í gegnum þetta þing til þess að koma þessum Landsrétti af stað.“

Svo ég umorði þessa spurningu aðeins vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún þurfi mögulega meiri tíma til að fara yfir lög um Landsrétt og fara í heildarendurskoðun á þeim þar sem við erum alltaf að standa í einhverjum reddingum. Mig langar að spyrja: Þurfum við að standa í fleiri reddingum út af þessum lögum? Er kannski mál að starfsmenn ráðuneytisins fari rækilega yfir lögin og tryggi að við séum ekki alltaf í þessum reddingum á þessu þingi? Þetta er orðið svolítið þreytt, einu málin sem koma frá dómsmálaráðherra eru einhver reddingarmál fyrir Landsrétt.

Er kannski tilefni til þess að setja starfsfólk í ráðuneytinu í að fara rækilega yfir þessi lög og tryggja að við á þinginu séum ekki í endalausum reddingum fyrir dómsmálaráðherra?