148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

meðferð sakamála.

203. mál
[15:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta efni heyrir svo sem ekkert undir það frumvarp sem hér um ræðir og hefði verið upplagt í óundirbúnum fyrirspurn eða sérstakri umræðu. En mér er ljúft og skylt að ræða persónuverndarreglugerðina sem taka mun gildi í Evrópusambandinu 25. maí næstkomandi. Ekki apríl heldur í maí. Ég tel að persónuverndarreglugerðin sé mjög mikilvægt mál, það varðar mikilsverð réttindi borgaranna. Hér er verið að auka mjög réttindi borgaranna í hinum stafræna heimi sem við lifum og hrærumst í. Það er, eins og maður mundi segja í stuttu máli, mjög gott mál.

Ferlið við innleiðinguna. Persónuverndarreglugerðin, sem legið hefur fyrir af hálfu Evrópusambandsins, tekur gildi í Evrópusambandinu 25. maí næstkomandi, en EES-ríkin þurfa að innleiða þá reglugerð í EES-réttinn. Það fer þannig fram að það er lagt fyrir, tekin er ákvörðun um með hvaða hætti það verður gert. Staðið hafa yfir viðræður í yfir eitt ár um að velta fyrir sér möguleikum í því efni. Reglugerðin verður innleidd hér með nokkuð óhefðbundnu fyrirkomulagi, og það er nú það kannski sem tafið hefur málið.

Núna liggur fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að taka ákvörðun um hvort reglugerðin verði innleidd inn í EES-réttinn með þeim hætti sem EES-ríkin hafa lagt til. Ég á ekki von á öðru en að framkvæmdastjórnin fallist á það, en það þarf þó að bíða eftir formlegri afgreiðslu frá Evrópusambandinu um það. Í kjölfarið mun það mál fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina og þar með mun hún verða innleidd í EES-réttinn að undangenginni umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd hér á Alþingi og þar fram eftir götunum. Það verður ekki fyrr en að þessu ferli loknu sem frumvarpið sem ég hef haft í smíðum verður lagt fram fyrir Alþingi.