148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

áfengislög.

127. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á áfengislögum. Fjallar þetta frumvarp um afnám banns við heimabruggun til einkaneyslu. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. Olga Margrét Cilia, Halldóra Mogensen, Smári McCarthy, Jón Þór Ólafsson, Björn Leví Gunnarsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Helga Vala Helgadóttir og Logi Einarsson.

Frumvarpið sjálft er efnislega mjög einfalt. Lagt er til að tvö orð verði felld brott úr a-lið 2. mgr. 4. gr. laga um áfengi. Það eru orðin „einkaneyslu eða“.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram, á 145. þingi, en fékk ekki afgreiðslu þá og er aftur lagt fram efnislega óbreytt. Með frumvarpi þessu er lagt til að bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu verði afnumið.

Áfengisneysla er rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla þess, sala og neysla hefur lengi verið háð miklum takmörkunum vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem áfengisneysla veldur bæði þeim sem þess neyta og samfélaginu í heild.

Helstu ágreiningsefni síðustu ára hafa snúið að sölufyrirkomulagi, þ.e. hvort áfengi skuli einungis selt í þar til gerðum ríkisreknum verslunum, einkareknum verslunum eða hvoru tveggja. Með frumvarpi þessu er hvorki lögð til rýmkun á heimildum til dreifingar né breyting á sölufyrirkomulagi.

Framleiðsla áfengis er í dag heimil í atvinnuskyni með leyfi sem útgefið er af ríkislögreglustjóra samkvæmt reglugerð nr. 845/2007. Hins vegar er framleiðsla áfengis til einkaneyslu með öllu óheimil án tillits til eðlis framleiðslunnar eða leyfa.

Þrátt fyrir þetta hefur framleiðsla áfengis til einkaneyslu tíðkast mjög víða og mjög lengi í samfélaginu, þótt ekki hafi verið áberandi áhugi meðal almennings á því að tekið yrði á brotum. Þvert á móti hefur á undanförnum árum orðið til rík menning heimabruggunar, en athygli vekur að fólk sem stundar heimabruggun gerir jafnan enga tilraun til að fela hana. Fágun, félag áhugafólks um gerjun, starfar fyrir opnum tjöldum, hefur haldið auglýsta viðburði sem fengið hafa fréttaumfjöllun, sent umsögn til Alþingis um frumvarp um breytingu á sölufyrirkomulagi áfengis og sömuleiðis komið á fund allsherjar- og menntamálanefndar til þess að ræða þá umsögn. Það er því óhætt að fullyrða að allnokkur hópur fólks stundi framleiðslu áfengis til einkaneyslu án þess að hafa áhyggjur af framfylgd laganna þegar um einkaneyslu er að ræða. Með hliðsjón af háum refsiramma virðist reyndar vera lítil meðvitund um að athæfið sé yfir höfuð bannað.

Þætti verknaðurinn hneykslanlegur eða brjóta í bága við almannahagsmuni mætti ætla að slík viðhorf kæmu fram í almennri umræðu um áfengismál, en svo er ekki. Áfengismál eru réttilega mjög umdeild og því verður að taka þeirri staðreynd að hvorki virðist áhugi meðal yfirvalda né almennings á því að framfylgja banninu sem vísbendingu um að hið fortakslausa bann við framleiðslu áfengis til einkaneyslu eigi ekki lengur erindi í íslensku samfélagi.

Síðustu ár hafa rutt sér til rúms fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór. Forvitni ferðamanna og áhugi þeirra á íslenskum bjór hefur aukist samhliða þeirri þróun.

Óumdeilt þykir meðal þeirra sem til þekkja að heimabruggun eigi ríkan þátt í því að svo margar nýjar gerðir bjórs hafi komið fram á undanförnum árum og öðlast vinsældir. Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tekist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði, grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.

Fólk hefur óskoraðan rétt til þess að geta á raunhæfan hátt kynnt sér þau lög sem ætlast er til að það fari eftir, samanber 27. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að birta skuli lög. Markmið þeirrar greinar er að einstaklingar hafi raunhæft tækifæri til þess að haga sér í samræmi við væntingar samfélagsins og í samræmi við lög. Þau lög sem hér um ræðir eru sjálf mjög skýr en hins vegar eru væntingar löggjafans og samfélagsins í miklu ósamræmi við lagabókstafinn eða í það minnsta óskýrar. Þótt ákvæðið stangist ekki beinlínis á við 27. gr. stjórnarskrárinnar stangast það hins vegar óneitanlega á við það markmið sem greininni er ætlað að ná, nefnilega það að borgarinn sé meðvitaður um hvaða hegðun teljist ásættanleg að mati löggjafa og samfélags.

Þótt færa mætti rök fyrir því að sá hluti ákvæðisins sem bannar framleiðslu áfengis til einkaneyslu sé í reynd dauður bókstafur stendur eftir að ákvæðið er enn þá í lögum og í þokkabót mjög skýrt. Lítil almenn meðvitund um bannið, ásamt þeirri staðreynd að athæfið er hvort tveggja samfélagslega viðurkennt og viðgengst enn fremur óáreitt, veikir hins vegar stöðu borgarans gagnvart geðþóttaákvörðunum yfirvalda. Erfitt er að sjá fyrir fram hvaða afleiðingar það hefði fyrir þá einstaklinga sem framleiða áfengi til einkaneyslu ef yfirvöld tækju skyndilega upp á því að framfylgja banninu.

Af fyrrgreindum ástæðum leggja flutningsmenn frumvarps þessa til að framleiðsla áfengis til einkaneyslu verði heimiluð með því að fella brott þann hluta ákvæðisins sem varðar einvörðungu einkaneyslu.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir greinargerð frumvarpsins en langar að taka fram tvennt annað. Eins og kemur fram almennt þegar við ræðum vímuefnamál — og áfengismál eru vímuefnamál, áfengi er ekki á nokkurn hátt eitthvað minna vímuefni, eitthvað minna dóp en annað dóp, ekki á neinn hátt, nema auðvitað að áfengi er samfélagslega og lagalega viðurkennt dóp — er hætt við að fólk geri lítið úr mikilvægi umræðunnar. Alltaf þegar hið svokallaða bús-í-búðir-mál kemur hér til umfjöllunar, sem snýst um að heimilað verði að selja áfengi í búðum, almennum verslunum sem eru ekki reknar af ríkinu, þá spyr fólk: Er þetta nú mikilvægasta málið? Er þetta endilega það sem við viljum vera að eyða tíma okkar í? Og jú, stundum getur svarið alveg verið nei. En ég vil bara halda því til haga að að mér vitandi hefur enginn þingmaður nokkurn tíma sett það mál í sérstakan forgang. Það hefur bara verið lagt fram. Það virðist vera nóg til að hér fari allt í steik.

Þetta mál er mikilvægt. Ekki vegna þess að það fjallar um áfengi heldur vegna þess að það fjallar um sex ára fangelsisvistarramma við hegðun sem er samfélagslega viðurkennd. Það gerir réttindi borgarans brothætt. Um það snýst þetta mál.

Önnur leið væri að framfylgja þessu banni og þurrka þar með út þá þróun í bjórmenningu sem er að eiga sér stað á Íslandi með tilheyrandi kostnaði fyrir þann iðnað sem blómstrar núna á Íslandi vegna þess að ferðamönnum finnst áhugavert og skemmtilegt að prófa íslenska bjóra. Það myndi þurrka það út til að byrja með. Og sömuleiðis er bara ekkert ákall eftir því. Það er enginn að mér vitandi sem kallar eftir því að þessu banni verði framfylgt.

Það er ekki nóg með að þetta sé bannað heldur er refsiramminn mjög hár, sex ára fangelsisvist liggur við þessu broti. Þó að áfengið sé ekki selt neinum, afhent neinum eða neitt gert. Bara það að brugga heima hjá sér til einkaneyslu varðar fangelsi allt að sex árum.

Sex ára fangelsisvist er hættulegur tími, ekki bara vegna lengdar fangelsisvistarinnar sem fræðilega væri hægt að dæma menn í, heldur vegna þess að við þann refsiramma virkjast ýmsar rannsóknarheimildir lögreglu. Lögreglan fer að geta gert hluti og óskað eftir heimildum sem hún annars gæti ekki eða ætti alla vega í verulegum vandræðum með. Það eru hlutir eins og símhleranir og því um líkt. Enn og aftur: Ég veit ekki til þess að lögreglan beiti þeim, eðlilega og sem betur fer. En þegar við erum með eitthvert athæfi sem viðgengst í samfélaginu óáreitt og enginn virðist hafa neitt sérstaklega mikið við það að athuga er hættulegt að hafa slíkar rannsóknar- og refsiheimildir í lögum. Það þarf ekki að gerast nema einu sinni að einhver geðvondur lögreglustjóri einhvers staðar taki upp á því að byrja að framfylgja banninu af miklum þunga og þá eru réttindi fólks í miklum voða.

Ég vil ítreka að þetta bann er engan veginn brot á 27. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um að lög skuli birta. En sú grein hefur markmið. Hún hefur það að markmiði að við eigum að geta lifað okkar lífi og hagað okkur eins og við gerum án þess að vera með einhverja fullkomna siðferðiskennd á borð við alla aðra í samfélagi okkar. Þess vegna erum við með lög. Það er vegna þess að við höfum ekki þennan sameiginlega skilning á því hvað sé við hæfi og hvað ekki. Þess vegna þurfum við að ræða það, setja það í lög og reglur og svokölluð samfélagsleg norm, samfélagslegar venjur og væntingar.

Í þessu tilfelli eru væntingar og venjur samfélagsins algerlega á skjön við lög sem eru skýr og með háum refsiramma og heimila miklar rannsóknarheimildir. Það er alvarlegt. Það er vandamál. Þannig að já, í mínum huga er þetta ákveðið forgangsmál af þeirri ástæðu. Ekki vegna þess að það varðar áfengi. Það er aukaatriði hver hegðunin er. Ef um væri að ræða einhverja aðra hegðun sem væri algerlega samfélagslega samþykkt og nyti sömu stöðu og þessi tiltekna lagagrein og hefði þetta háan refsiramma myndi ég leggja fram eins mál og ég myndi segja að það væri mikilvægt af sömu ástæðu. Þetta snýst ekki um áfengi. Þetta snýst um réttindi borgaranna og að þeir hafi góðan rétt á að verða ekki fyrir offorsi yfirvalda vegna einhverrar geðþóttaákvörðunar. Um það snýst þetta allt saman.

Það er svo sem ekki mikið meira að segja um þetta en ég vil þó koma einu að sem ég varð áskynja í umræðum eftir að ég hafði lagt fram frumvarpið. Það er að þótt með þessu frumvarpi sé felld burt fangelsisrefsingin er túlkun sumra samt sem áður sú að það þurfi enn þá leyfi sem geti verið mjög dýrt og erfitt að fá til þess að sinna þessu. Ég vil vísa því til hv. nefndar, hver svo sem það verður, (Gripið fram í.) að skoða það sérstaklega. Aðalatriðið hér er að fjarlægja þessa refsingu.

Auðvitað er staðan í samfélaginu orðin þannig, hvort sem fólki líkar betur eða verr, að það er auðvelt að brugga heima hjá sér. Það er mjög víðtæk þekking á því og auðvelt að nálgast þá þekkingu. Það er enginn raunverulegur möguleiki á að rannsaka og refsa fyrir þessi mál án þess að ganga svolítið af göflunum í húsleitum og símhlerunum þannig að auðvitað hljótum við að vilja heimila heimabruggun, til einkaneyslu, ég undirstrika það. Þetta frumvarp fjallar einungis um einkaneysluna. Ég vil árétta að í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram, með leyfi forseta:

„Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögum þessum varðar refsingu skv. 27. gr.“

Þá er átt við 27. gr. laganna, ekki stjórnarskrárinnar, sem væntanlega er augljóst.

Ég vísa málinu til nefndar sem ég geri ráð fyrir að sé hv. allsherjar- og menntamálanefnd þar sem hún fór með áfengismálið svokallaða síðast og þetta mál fjallar um löggæslu og því um líkt.