148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[16:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugavert mál sem hv. þingmaður mælir fyrir hér. Ég held að segja megi að það sé löngu tímabært að við förum að skilja á milli opinberra frídaga og þjóðkirkju sem liðs í því að virða trúfrelsi fólks og skilja á milli ríkis og kirkju. Ég velti því hins vegar fyrir mér í þessu samhengi hvort flutningsmenn hafi velt þeim möguleika fyrir sér, af því að hér er eftir sem áður gengið út frá því að hátíðisdagar þjóðkirkjunnar séu áfram hinir opinberu frídagar þjóðarinnar, að ástæða væri til að auka svigrúm eða frelsi í þessu með því t.d. að afmarka heldur færri trúarlega frídaga samkvæmt kristni en þarna er gert og gefa þess í stað fjóra, fimm eða sex frídaga, af þeim 13, ef ég man rétt, sem þarna eru upptaldir. Það gætu verið valkvæðir frídagar af trúarlegum ástæðum sem væri þá gert til að virða trúarskoðanir annarra. Viðkomandi gætu þá borið því fyrir sig gagnvart vinnuveitanda sínum að það væru þeirra trúarlegu frídagar, en þeir væru hins vegar reiðubúnir til að vinna á kristilegum frídögum þess í staðinn.

Mér fyndist það vera í takt við almenna virðingu fyrir öðrum trúarbrögðum og trúfrelsi fólks að einstaklingar hafi svigrúm hvað þetta varðar. Það endurspeglar ekki síst gerbreytta samsetningu þjóðarinnar og mun fjölbreyttari trúarbragðaflóru en við höfum áður átt að venjast. Sú hugsun sem liggur að baki þeim lögum sem þarna er lagt til að verði felld brott endurspeglar það. Um er að ræða anda liðinna tíma og fagnaðarefni að fram sé komið frumvarp sem hvetur til endurskoðunar í þessum efnum.