148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[17:57]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með nokkrar skoðanir á því, eins og kemur stundum fyrir. Ein skoðunin er sú að ég myndi styðja upptöku nýrrar stjórnarskrár á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs eins og það var útlagt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012. Það er ýmislegt í því frumvarpi sem mér er sjálfum í nöp við, sem ég myndi sjálfur vilja breyta eða hafa öðruvísi, en ég læt mig hafa það vegna þess að mér finnst mikilvægt að koma á þeirri stjórnarskrá. Og athugið, virðulegi forseti, að sú þjóðaratkvæðagreiðsla snerist um þá stjórnarskrá, ekki þetta einstaka atriði. Það er ein skoðun.

Önnur skoðun er sú, og ég átta mig alveg á því að lögfræðilega er þetta þýðingarlaust en þetta skiptir máli í sambandi við það hvernig fólk túlkar hlutina, að spurningin í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu var óljós. Ég hef flutt hér ræðu um það og get alveg vísað hv. þingmanni á hana ef hann vill, ef hann kærir sig um. En mér þætti gaman að sjá hvað hefði gerst ef þarna hefði í staðinn verið spurning um það að í stjórnarskrá skuli vera ákvæði um að allir skuli njóta jafnra réttinda án tillits til trúarbragða. Þá held ég að það hefði verið aðeins meira en þessi litli meiri hluti sem greiddi því atkvæði.

En síðast en ekki síst hef ég þessa skoðun: Hlutir eins og trúfrelsi, tjáningarfrelsi, mannréttindi, jafnræði fyrir lögum, eru ekki háðir því að meiri hlutinn sé hlynntur þeim hverju sinni. Við förum ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort einhver eigi að fá sanngjörn réttarhöld, um það hvort við ætlum að leyfa þessum tiltekna einstaklingi að hafa skoðun en ekki öðrum. Það eru ákveðnir hlutir sem felast í jafnræði fyrir lögum. Jafnræði fyrir lögum er í mínum huga undirstaða lýðræðisins. Það þýðir ekkert að tala um lýðræði, hvort sem það eru þjóðaratkvæðagreiðslur eða eitthvað annað, án þess að það sé jafnræði fyrir lögum. Ríkiskirkja brýtur í grundvallaratriðum á því prinsippi þannig að ég mun berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum. En ég myndi þó samþykkja (Forseti hringir.) að greiða atkvæði með frumvarpi grundvölluðu á frumvarpi stjórnlagaráðs af þeim sökum. Ég vona að þetta svari spurningunni.