148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er að finna á þingskjali 207, mál nr. 135. Tillaga þessi er um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs og hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp óháðra sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Við greiningarvinnuna verði sérstaklega horft til þess hvernig verðbólga er mæld í helstu viðskiptalöndum Íslands og metið hvaða áhrif breytingin hefði á launakjör, lánakjör, stöðu verðtryggðra lána og vexti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu með helstu niðurstöðum eigi síðar en í september — hér stendur 2017 en augljóslega hefur láðst að breyta þessu ártali, en hér er um endurflutning að ræða, það á augljóslega að vera 2018. Ég vænti þess að hv. efnahags- og viðskiptanefnd geri bragarbót á og geri þessa augljósu breytingu í umfjöllun um málið. Að öðrum kosti fellur það bara um sjálft sig. Því er hér með komið til skila og ekki við neinn annan að sakast í þessu en þann er hér stendur, að hafa láðst að breyta ártalinu þarna.

Meðflutningsmenn að tillögunni eru ásamt þeim sem nú mælir fyrir málinu hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Markmiðið er að standa faglega að því að taka upp samræmda vísitölu neysluverðs, eins og hún er kölluð, þar sem meginmunurinn snýr að húsnæðislið þeirrar neysluvísitölu sem við nú styðjumst við sem mælikvarða á verðlagsbreytingar.

Í greinargerð kemur fram að tillagan var fyrst lögð fram á 145. löggjafarþingi og síðan endurflutt á 146. þingi og var ekki afgreidd í þau skipti en er nú lögð fram í óbreyttri mynd utan þess að búið er að bæta við texta í greinargerð. Tillagan sjálf er hins vegar óbreytt.

Það sem hefur breyst frá þeim tíma þegar tillagan var lögð fram síðast er að komin er ný ríkisstjórn. Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur hug á að kanna þessi mál til hlítar og er það vel. Finnst okkur flutningsmönnum málsins því mikilvægt að flytja málið að nýju og fá stuðning þingsins við að fylgja því eftir.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir, með leyfi forseta, á bls. 10, nánar tiltekið og orðrétt:

„Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.“

Sú tillaga sem hér er lögð fram er því í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann og vilja núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Þess utan og tengt því hefur hæstv. ríkisstjórn enn fremur sagt og lagt það fram í stjórnarsáttmálanum, og vísa ég nú aftur orðrétt í þann sáttmála, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verður ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði. Sérstök áhersla verður lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika. Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.“

Ég vísa í sáttmálann vegna þess að þá eru þessi mál tengd. Það er mikilvægt að skoða vísitöluna, ég tala ekki um ef stigið verður það heillaskref, og nú tala ég frá hjartanu í því máli, að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Þess vegna er mikilvægt að skoða vísitöluna í þessu samhengi, og til samanburðar við nágrannalönd okkar, hvernig farið er með þennan mælikvarða á verðbólgu. Stór hluti lána okkar, eins og við þekkjum, er vísitölutengdur eða verðtryggður.

Hér á landi hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs eins og hún er reiknuð sem mælikvarði á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Fram að þeim tíma, frá 1979 þegar verðtryggingargrunnur lánaskuldbindinga var festur í lög með svokölluðum Ólafslögum, var stuðst við samsetta vísitölu og var það fram til 1989 að einum þriðja hluta byggingarvísitölu og tveimur þriðju hlutum svokallaðri framfærsluvísitölu og kölluð lánskjaravísitalan. En frá því ári til 1995 var hún samsett af framfærslu-, byggingar- og launavísitölu að jöfnu, einum þriðja hver.

Frá árinu 1995 er miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og má finna útreikning þeirrar vísitölu til verðtryggingar hjá Hagstofu Íslands, en Hagstofa Íslands reiknar og birtir vísitölu neysluverðs í samræmi við lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995. Síðan hefur hún eins og ég sagði verið notuð sem grundvöllur verðtryggingar samkvæmt núverandi lögum um vexti og verðtryggingu.

Ég vil jafnframt í þessu sambandi benda á ágætisyfirlit yfir þessa þróun í skýrslu um afnám verðtryggingar, sérálit Vilhjálms Birgissonar, sem kom út í janúar árið 2014. Það var vilji þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem sat það kjörtímabil, 2013–2016, að afnema verðtryggingu en náði ekki lengra en að skila tveimur ágætisskýrslum.

Ég get alveg sagt að ég hefði viljað taka það skref alla leið og taka mið af skýrslu sem birtist í sérálitinu sem ég minntist á, en um málefni verðtryggingar er fjallað í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Þar er tilgreindur grundvöllur sem nýta skal við verðtryggingu fjárskuldbindinga sem uppfylla skilyrði laganna. Þær tvær skýrslur sem ég kom inn á voru í megindráttum sammála, en meiri hluti nefndarinnar, sem klofnaði með þessu séráliti Vilhjálms Birgissonar, vildi fara hægar í að afnema verðtryggingu á neytendalán, fasteignalán, en Vilhjálmur Birgisson í séráliti vildi stíga skrefið þá og þegar.

Við erum hér og nú að mæla fyrir þessu máli, að skipa starfshóp sérfræðinga sem greini kosti og galla þess að gera breytingar á útreikningi verðbólgu og verðtryggingar þannig að framvegis verði notuð samræmd vísitala neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Það er auðvitað sannarlega tengt verðtryggingu lána. Þess vegna kem ég inn á hana í ræðu minni.

Ég vil líka láta þess getið að í skýrslu meiri hluta hins skipaða starfshóps kom skýrt fram og var beinlínis lagt til að tekin yrðu veigamikil skref eins og ég kom hér að.

Í Evrópusambandsríkjunum er stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs. Ég held að oft í umræðunni sé það ekki alveg klárt og það er alveg skiljanlegt að ekki sé fullur skilningur á þeim greinarmun sem er á þeirri vísitölu og útreikningi víða í Evrópu og í Evrópu almennt og vísitölu neysluverðs hér. En tekið er tillit til húsnæðiskostnaðar. Hér er sérstakur liður sem er svokölluð reiknuð húsaleiga. Þar er m.a. tekið mið af þeim fórnarkostnaði að binda fjármagn í fasteign. Þess vegna er ekki síður mikilvægt að fá fram í skýrslu góða greiningu frá sérfræðingum um hverjir séu kostirnir og gallarnir við þetta áður en lengra er haldið. Þess vegna erum við flutningsmenn með þetta í þingsályktunartillögu og viljum ýta á eftir þessu máli.

Tilgangurinn er auðvitað alltaf sá sami þegar við erum með slíka mælikvarða á verðlagsbreytingar, að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum sem við miðum okkur við. Samræmda vísitalan er sem sagt notuð. Eitt sem ég vil koma inn á í þessu samhengi um mun á þeim vísitölum er að misjafnt er eftir löndum hversu handhægt það er að sækja upplýsingar um fasteignamat. Þess vegna hefur tafist víða í Evrópuríkjum að reikna inn þennan húsnæðislið. Í umsögn frá Hagstofunni um málið þegar það var flutt síðast kom fram að að þremur árum liðnum, en málið var síðast hér 2017, yrði búið að taka þessa útreikninga inn í vísitöluna sambærilega við það sem hér gerist. Það má þá vel vera að það komi fram í umfjöllun um málið nú að það sé á góðri leið.

Það er mikilvægt þegar við erum með mælikvarða eins og þessa að þeir séu einfaldir, skiljanlegir, en ekki síður sambærilegir á milli þjóða þannig að við getum borið okkur saman við aðrar þjóðir í þessum efnum.

Hlutverk beggja vísitalna er að mæla verðbreytingar á vöru og þjónustu sem almenningur kaupir til einkanota en mismunandi vöruflokkar liggja til grundvallar hvorrar vísitölunnar fyrir sig. Þar munar líklega mestu um kostnað við eigið húsnæði. Hefur hækkun húsnæðisverðs reiknast þannig beint inn í vísitölu neysluverðs en hefur aðeins afleidd áhrif á þróun samræmdrar vísitölu neysluverðs í gegnum húsaleigu. Það að halda húsnæðisverði og kostnaði við eigið húsnæði utan vöruflokka sem reiknast til neysluverðsvísitölu hefur verið rökstutt með því að þar sé fremur um að ræða fjárfestingu en eiginlega neyslu. Annar veigamikill munur á vísitölunum er sá að útgjöld ferðamanna eru undanskilin við útreikning vísitölu neysluverðs en ekki samræmda vísitölu neysluverðs.

Verðbólgumæling þar sem stuðst er við vísitölu neysluverðs sýnir jafnan hærri verðbólgu en ef stuðst er við samræmda vísitölu neysluverðs. Má leiða að því líkur að húsnæðisverð og kostnaður við eigið húsnæði skipti þar mestu máli. Þannig kom t.d. fram í 4. tölublaði Peningamála Seðlabanka Íslands árið 2016 að ársverðbólga í október það ár hefði mælst 1,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis hefði lækkað um 0,5% frá fyrra ári. Verðbólga miðað við samræmda vísitölu neysluverðs hefði mælst 1,1% í september 2016. Slíkur munur getur augljóslega haft veruleg áhrif á þróun verðtryggðra lána.

Þessi tillaga er jafnframt, og ég vil koma því að, í samræmi við ályktun Alþýðusambands Íslands sem skoraði á stjórnvöld og Alþingi að beita sér fyrir því að vísitala neysluverðs til verðtryggingar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu verði reiknuð án húsnæðisliðar.

Það er vilji okkar flutningsmanna, virðulegi forseti, að fram fari heildrænt mat á því, kostir og gallar skoðaðir, og það dregið fram (Forseti hringir.) áður en ráðist verður í slíka breytingu.