148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

135. mál
[19:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef haldið uppi mikilli gagnrýni á Seðlabanka Íslands fyrir vaxtaákvarðanir hans um nokkurra ára skeið. Ég verð að segja mér til mikillar hryggðar að ég hef ekki haft tíma til að ræða það fyrr hér á Alþingi að síðasta ákvörðun bankans var af nákvæmlega sama meiði og áður. Það kom hins vegar fram á þessum fundi sem ég vitnaði til sem haldinn var úti í Háskólabíói í undanfara kosninga í haust, að verðbólguspádómar og verðbólguvæntingar Seðlabanka Íslands horft sex ár aftur í tímann eru svo langt frá því að hafa staðist. Þær eru gjörsamlega ofmetnar. Árið 2015 þegar Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í tveimur ákvörðunum í kjölfar kjarasamninga um eitt prósentustig eða rúmlega það kallaði ég það óðagot og stend við það enn. Seðlabankamenn berja sér á brjóst nú þremur árum seinna. Hvað eru þeir búnir að gera? Þeir eru búnir að færa vextina niður í sömu prósentutölu og hún var áður en þeir byrjuðu að fikta í henni í júní 2015, hafandi fyrir framan sig verðbólguspá sem hefur reynst gjörsamlega á skjön við raunveruleikann.

Auðvitað kann vel að vera að með því að kippa húsnæði út úr vísitölunni þurfi að gera einhverjar breytingar á því lagaumhverfi sem Seðlabankinn vinnur eftir þannig að hann geti tekið ákvarðanir sínar á einhverjum öðrum og fastari og betri grunni en sá sem nú er. Sá sem hér stendur er sannarlega vakandi yfir því og mun fylgja því máli fram. Ef það er nauðsynlegt þá gerum við það. Þá leggjum við hér fram frumvarp um að lögum um það hvernig Seðlabanki Íslands og peningastefnunefnd ákveður vexti verði breytt. Við gerum það, teljum við það nauðsynlegt. Og það er nauðsynlegt. Það vita það allir.

Núna í undanfara kjarasamninga sem eru í burðarliðnum, hvað halda menn að myndi gerast ef nú yrðu lækkaðir vextir? Ég get bent á eitt. (Forseti hringir.) Ég hugsa að kröfur Alþýðusambandsins myndu jafnvel lækka (Forseti hringir.) ef menn sæju fram á það að vextir færu lækkandi í landinu og það myndi gera atvinnurekendur klárari í það (Forseti hringir.) og færari um að standa við kjarasamninga.