148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir að hefja hér umræðu um stöðu löggæslu á Íslandi.

Við í Samfylkingunni höfum talað okkur rám í þinginu sem og utan þings vegna þess ófremdarástands sem ríkt hefur í löggæslumálum allt of lengi og nú í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Lögðum við til við umræðu um fjármálaáætlun á síðasta þingi að fjármagn til löggæslumála yrði aukið um 600 milljónir og í aðdraganda kosninga í október 2017 vöktum við áfram athygli á vandanum.

Jú, það er ófremdarástand, hæstv. dómsmálaráðherra.

Lögreglustjóri talar um að það vanti 1 milljarð króna til að ná fjölda lögreglumanna eins og fjöldinn var hér fyrir 10 árum. Þetta er nefnilega ekki nýtilkomið ástand heldur hafa Landssamband lögreglumanna og ríkislögreglustjóri sent stjórnvöldum ákall árum saman vegna skorts á lögreglumönnum og álags á þeim sem þar starfa. En það er ekki óalgengt að lögreglumenn vinni 100 yfirvinnustundir í hverjum einasta mánuði ofan á sína daglegu vinnu, ofan á allt það álag sem er þar.

Á höfuðborgarsvæðinu einu er áætlað að vanti um 100 lögreglumenn ef vel á að vera og þar bíða hvorki fleiri né færri 5.300 mál afgreiðslu. Það er ófremdarástand, 5.300 mál þar sem eru brotaþolar, þar sem eru fjölskyldur, þar sem eru sakborningar sem bíða niðurstöðu mála. Alls staðar um landið ríkir skortur á lögreglumönnum og þjónusta er víða lítil sem engin.

Herra forseti. Þetta er pólitísk ákvörðun.

Árið 2007 var fjöldi lögregluþjóna 712, nú 11 árum seinna eru þeir 660. Samanlagður fjöldi ferðamanna árið 2008–2016 er jafn mikill og öll 60 árin á undan, eða sjö milljónir. Á þessu ári er áætlað að hingað komi þrjár milljónir ferðamanna. Hvernig sér hæstv. dómsmálaráðherra fyrir sér að öryggi ferðamanna og landsmanna verði tryggt þegar svona er í pottinn búið?