148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[15:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við í Pírötum höfum kannski helst rætt um eftirlit með lögreglu þegar kemur að lögreglumálum og lögðum fram á sínum tíma þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Svo fór að þáverandi innanríkisráðherra setti á fót nefnd sem heitir nefnd um eftirlit með lögreglu og við sjáum hvernig fer með hana.

Eitt af því sem við höfum haldið til haga frá upphafi er að þegar kemur að valdbeitingarheimildum lögreglu verðum við að búa þannig um hnútana að lögreglan upplifi sig ekki knúna til að beita heimildum umfram það sem þörf er á. Þörfin verður auðvitað mest þegar það er mikið álag, launin eru lág í vanþakklátu starfi og allt of fáir einstaklingar sinna starfinu. Það snýst ekki bara um að hafa viðunandi löggæslu í því samhengi að hafa nógu mikið af lögreglumönnum til að rannsaka glæpina, við þurfum líka að búa þannig að lögreglunni að henni sem stofnun sé gert kleift að sinna verkinu án þess að grípa til ráða sem ég held að flest fólk vilji ekkert að lögreglan almennt grípi til.

Nú er oft ákveðin vantrú á að lögreglan geti gert eitthvað mikið af sér. Hins vegar er þetta mannleg stofnun með sína mannlegu bresti, alveg eins og Alþingi og aðrar mannlegar stofnanir. En þetta er sú stofnun sem má fara með líkamlegt vald. Hún hefur valdheimildir langt umfram aðrar stofnanir, leyfi til að beita fólk valdi. Þá skiptir máli að við búum vel um hlutina. Hluti af því er að hafa eftirlit. Við förum nánar út í þá sálma síðar. Stærsti þátturinn í því að fyrirbyggja að þess gerist þörf er að manna lögregluna nógu vel, launa nógu vel og mennta hana nógu vel. Við höfum stigið góð skref, held ég, í átt að menntuninni, en það skortir enn þá á fjöldann og launin. Við eigum að sýna fólki í þessari starfsstétt að við metum það að verðleikum.