148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[17:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að bregðast við orðum hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés. Undir þeim kringumstæðum þegar ekki gefst nægur tími til að vinna málin fara vinnubrögðin hér að einkennast af fúski. Það er þannig. Ég þekki það mjög vel frá þarsíðasta kjörtímabili þegar ég var þingmaður, þá komu málin yfirleitt, ef ekki alltaf, ekki samt í öllum málum, fram mjög seint. Þá gafst lítill tími til að vinna þau. Þá myndaðist mikil spenna, mikið stress, mikil tímaþröng, ofboðslega mikil pressa á að klára málin eins hratt og mögulegt væri. Þá getum við ekkert að því gert að vinnubrögðin fara að einkennast af fúski. Í því felst ekki áfellisdómur yfir stofnuninni sem slíkri og það er ekki fyrir neðan virðingu Alþingis, það er bara það sem gerist þegar ekki er gefinn nægur tími. Það er einmitt ótti minn núna að málin komi of seint, við fáum ekki nægan tíma og þurfum annaðhvort að stunda fúskvinnubrögð eða að sleppa því að afgreiða mál.

Ég vil líka segja að það verður ekki hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það ef það gerist. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)