148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að ég skil hugmyndina og almennt séð styð ég hana en það er útfærslan sem við erum að gagnrýna, til þess að hafa það algjörlega á hreinu.

Þetta ákvæði í sveitarstjórnarlögum varðar íbúalýðræðið, lýðræðið almennt, mjög mikið og hv. flutningsmaður hvatti þingið til að koma með breytingartillögur. Ég skal leggja drög að einni núna, svona ákveðnar hugmyndir.

Það er ekki mjög óeðlilegt að það séu ákveðin lýðræðisréttindi sem fólk getur gengið að, t.d. ákveðið gólf á fjölda fulltrúa. Í núgildandi ákvæði, 11. gr., er það skilgreint eftir ákveðinni töflu, þar er ákveðið gólf en þar er líka þak. Ég sé ekkert að því að fjarlægja þakið, ekki neitt. Ég sé heldur ekkert að því að endurskoða gólfið á einhvern hátt þannig að það sé jafnvel lægra en það er, en þá myndi ég vilja bæta því við að sú ákvörðun væri einfaldlega staðfest með íbúalýðræði.

Nú hafa Píratar einmitt rætt um og hafa lagt fram hugmyndir varðandi íbúalýðræði. Í sveitarstjórnarlögum er nefnilega ákvæði um það að íbúar geti safnað undirskriftum til þess að knýja fram umfjöllun í sveitarstjórn eða jafnvel beina kosningu um málið. Það væri ekkert óeðlilegt að frumkvæðið að þessu kæmi kannski þaðan. Eða að ef sveitarstjórn ákveður að breyta gólfinu, fækka sem sagt sveitarstjórnarfulltrúum, þá kæmi í kjölfarið staðfesting íbúa á þeirri breytingu því að þetta varðar þá beint.

Við þurfum að athuga að það er möguleiki á lýðræðishalla vegna stærri flokkanna sem hagnast á því að fækka fulltrúum. Við vitum þetta, við getum ekkert hunsað þá staðreynd. Við verðum að setja varnagla við þann lýðræðishalla sem getur orðið. Sá varnagli finnst mér augljóslega vera íbúakosning, það er ekkert rosalega flókið. Þó að ákveðið gólf væri sett í almennum lögum miðað við ákveðinn fjölda íbúa væri ágætt að hafa einhvern hvata til þess að hafa almennt séð aðeins fleiri sveitarstjórnarfulltrúa þannig að fjöldi þeirra væri yfirleitt ekki akkúrat við gólfið. Kannski ekki, þetta eru vangaveltur mínar. En afleiðingin af því að hafa færri fulltrúa er að það verður í raun auðveldara að miðstýra og stjórna þar sem koma færri að. Ef við tölum um pólitík á landsvísu er aðkoman auðveldari ef maður þarf ekki tala við eins marga fulltrúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig og það eru meiri möguleikar á leynd og spillingu í þannig umhverfi. Með því að fjölga fulltrúum er verið að búa til breiðari samráðsvettvang þar sem leynd og spilling þrífst ekki eins vel.

Mig langar til að vekja athygli á því sem segir í þessu frumvarpi, bæði í a- og b-lið, aðallega b-lið, um 2.000 íbúa og að aðalmenn skuli ekki vera fleiri en sjö en þó ekki færri en fimm. Það er óbreytt miðað við núverandi lög, þar er tekið fram að sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa skuli vera með á bilinu fimm til sjö aðalmenn. Það er skilið eftir óbreytt. Öllum öðrum þrepunum í töflunni er breytt við lágmark fimm fulltrúa. Það finnst mér vera pínulítið hættulegt lýðræðislega séð. Segjum að í 50.000 manna sveitarfélagi myndi meiri hlutinn ákveða að setja fjölda sveitarstjórnarfulltrúa niður í fimm. Það er tvímælalaust stærri umræða sem við þurfum að taka með fólki almennt, hvort því finnist það vera góð hugmynd eða að það sé möguleiki á því yfirleitt. Það ætti ekki að vera svo mikil hætta á því ef það er íbúakosning um það hvort það eigi að fækka sveitarstjórnarfulltrúum og jafnvel fjölga þeim líka ef svo ber undir.

Það sem Píratar hafa lagt fram hvað þá hugmynd varðar að nærsamfélagið hafi meira um sitt sjálfræði að segja, sem við styðjum heils hugar — þessi útfærsla gerir það ekki alveg og við bendum á gallana hvað það varðar — þá höfum við bent á að til þess að sveitarfélögin séu sjálfstæðari þurfi þau að hafa sjálfstæðari fjárhag. Það er mjög einfalt. Fjárhagurinn segir rosalega mikið til um það hversu háð sveitarfélögin eru í rauninni ríkisvaldinu um framkvæmdir og þau umsvif sem þau þurfa að standa í, bæði lögum samkvæmt og til þróunar.

Við berjumst fyrir því að íbúarnir, ekki endilega fulltrúarnir, fái meira beint lýðræði með því að leggja fram þá hugmynd að sveitarfélögin geti lækkað þann undirskriftaþröskuld sem þarf til þess að boða til kosninga um ákveðin mál. Ef eitthvað er þá er það í rauninni brýnna mál en að stilla af fjölda fulltrúanna, að mínu mati, eins og lagt er til í þessar tillögu. Það er brýnna að virkja beina lýðræðið betur.

Ég ætla einfaldlega að leggja til að við tökum þessa umræðu. Við styðjum hugmyndir um meira sjálfræði sveitarstjórna og nærsamfélagsins og íbúanna, íbúa nærsamfélagsins, vinnum með það. Þetta eru svona drög mín að breytingartillögu sem ég myndi leggja fram í umhverfis- og samgöngunefnd þótt ég sé áheyrnarfulltrúi, ég veit ekki alveg hvernig ég get lagt hana fram en sjáum til, það hlýtur að ganga. Kannski kemur hún bara fyrir þingið eftir afgreiðslu nefndarinnar.

Þetta þarf ekki að vera þrætuepli. Þetta á hins vegar að vera samvinnuferli þar sem við eigum að taka þessa umræðu í stærra samhengi með fólki og sveitarfélögum sem þetta mál varðar. Við viljum forðast þá mögulegu hættu sem er tvímælalaust til staðar að stærri flokkar geti búið til lýðræðishalla með því að fækka sveitarstjórnarfulltrúum og komist í raun hjá því að smærri hópar komist að eftirlitinu með meiri hlutanum. Það gæti t.d. verið fimm fulltrúa sveitarstjórn þar sem eru kannski þrír í meiri hluta og tveir í minni hluta af tveimur stærstu flokkunum. Það er mjög vel þekkt í íslenskum stjórnmálum, þetta hugtak um helmingaskipti. Út frá þeim grundvelli og vegna þeirrar sögu finnst mér þessi tillaga gríðarlega varhugaverð, bara út af því. Við megum ekki hunsa þennan möguleika sem er ekkert svo fjarlægur, langt frá því. Það sem við ættum að gera til þess að leysa það er að gera sveitarfélögin sjálfstæðari með sjálfstæðari fjárhag og efla beina lýðræðið innan þeirra, nærsamfélagsins, og meira samráð milli Alþingis og sveitarstjórna.