148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

samgönguáætlun.

[15:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur nefnilega einmitt skipt um lit í þessu máli. Mér finnst það vera algjörlega ólíðandi að stjórnarflokkarnir ætli að stinga undir teppi nauðsynlegum umbótum í landinu, uppbyggingu sem allir flokkar, ég ítreka allir flokkar, lofuðu fyrir tvennar síðustu kosningar. Ég skil vel nauðsyn þess að samgönguáætlun verði rædd, en það er nægur tími til þess að gera það eftir 1. apríl þegar fjármálaáætlunin kemur fram í ljósi þess að það var samhljómur um þá sem samþykkt var 2016.

Finnst hæstv. ráðherra það virkilega rétt í miðri umræðu um mikilvægi aukins gagnsæis og virðingu fyrir stjórnmálum að láta gömlu samgönguáætlunina standa ófjármagnaða fram yfir sveitarstjórnarkosningar og leggja síðan spilin á borðið í haust? Mér finnst það grafa undan trausti á stjórnmálum og bera vott um að það sé verið að plata sig í valdastólana.

Svo rétt í lokin: Mun hæstv. samgönguráðherra leggja fram nýja byggðaáætlun fyrir kosningar?