148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

málefni forstjóra Barnaverndarstofu.

[15:23]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt að hv. ráðherra hafði samband og mun koma á fund í velferðarnefnd, sem er gott. Það er mikilvægt að fara að endurskoða þessi barnaverndarmál.

Ég velti fyrir mér þessum ferlum. Í ljósi þess hversu viðkvæmur þessi málaflokkur er, þegar komið hafa fram ítarlegar upplýsingar um endurtekin óviðeigandi afskipti Braga Guðbrandssonar af starfi barnaverndarnefndar og sömuleiðis þegar fyrir liggur viðtal við fyrrverandi forstöðumann Barnahúss sem segir farir sínar ekki sléttar af samvinnu sinni við Braga, þá þykir mér það furðuleg forgangsröðun að taka fyrst þá ákvörðun að hann fari í framboð fyrir þessa nefnd innan Sameinuðu þjóðanna áður en niðurstaða liggur fyrir almenningi og okkur öllum um hvort maðurinn njóti í raun trausts til að gegna þeirri stöðu.

Spurning mín er: Af hverju lágu þessar niðurstöður ekki fyrir áður en tekin var ákvörðun um að Bragi Guðbrandsson færi í framboð fyrir barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna?