148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

breikkun Vesturlandsvegar.

[15:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum ágæta fyrirspurn. Það var fínn fundur á Kjalarnesi og vel sóttur. Sambærilegur fundur var haldinn á Akranesi fyrr í vetur og var hann líka mjög vel sóttur, þar var jafnvel enn fleira fólk. En það var ánægjulegt og ég tók með mér af fundinum á Kjalarnesi að það var fullkomin samstaða, ekki bara íbúanna á Kjalarnesi heldur líka allra sveitarfélaga á Vesturlandi, um að þau telja að helsta samgöngubótin fyrir allt þetta svæði sé endurbætur á Kjalarnesvegi. Ég get tekið undir að sá vegur er löngu sprunginn, eins og reyndar margir aðrir.

Það er rétt sem hv. þingmaður vísar til, deiliskipulag verður auglýst líklega í mars og komi ekki miklar athugasemdir varðandi það mun borgin væntanlega geta klárað það í sumar, hugsanlega í júlí eða ágúst. Á sama tíma hefur Vegagerðin verið í samskiptum við borgina, sveitarfélagið, um hönnunina. Full hönnun getur ekki átt sér stað fyrr en deiliskipulagið er endanlega komið í gegn, en verið er að reyna að vinna þetta samhliða til að spara tíma.

Því til viðbótar þarf að gera samninga við landeigendur um að aðeins verði breytt legu vega á ákveðnum svæðum. Verið er að breyta innkeyrslum og fækka þeim verulega. Þær eru yfir 20 í dag. Setja á eins konar sveitavegi við hliðina á þeim stærri til að safna inn á einn stað. Reyndar verða þarna nokkur hringtorg samkvæmt hönnun sem liggur fyrir eða sem verið er að vinna með.

Þetta er eitt af þeim verkefnum sem hljóta að vera í forgangi hjá okkur við vinnuna við samgönguáætlun. Ástæðan fyrir því að hún kemur ekki fram í vor, eins og ég hef sagt áður í dag, er að verið er að vinna hana þessa dagana. Í fjármálaáætlun og umræðum um fjárlög og fjármál var hugmyndin sú að menn tækju stóru myndina og ræddu í (Forseti hringir.) þinginu þegar fjármálaáætlunin lægi fyrir, en umræðan um fjárlög myndi breytast verulega, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir.

Ég vænti þess að við munum sjá þessum vegi einhvern stað í samgönguáætlun og væntanlega nokkuð framarlega í forganginum.