148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:45]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Árum saman hefur menntakerfi Finnlands verið annálað fyrir framsækni og árangur sem birtist m.a. í góðum niðurstöðum PISA-rannsóknanna. Hvað hafa Íslendingar gert eða ekki gert sem gerir það að verkum að árangur okkar er ekki eins góður? Og hvað hafa Finnar gert sem við gætum tekið upp hér á landi?

Miðað við hin Norðurlöndin er frammistaða íslenskra nemenda ekki góð samkvæmt nýlegri skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar. Ef litið er til annarra Norðurlanda stendur Finnland upp úr síðan niðurstöður fyrstu PISA-rannsóknarinnar voru birtar árið 2001. Þar hafa Finnar ávallt verið í efstu sætum í þeim greinum þar sem stærðfræði, frammistaða í lestri og náttúrufræði eru skoðuð.

Þegar leitað er ástæðna kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Mikil valddreifing er í finnska menntakerfinu, sveitarfélög, skólastjórnendur og kennarar hafa umtalsvert meira frelsi í starfi í Finnlandi en hér á landi. Hvað varðar áherslur og úrlausnir í námsefni og kennsluaðferðir er mikill munur á. Mikil virðing er borin fyrir kennarastéttinni í Finnlandi. Árlega sækja bestu nemendur landsins um að komast í kennaranám. Þar komast færri að en vilja.

Hæstv. forseti. Eins og áður segir hafa Finnar borið af í námsárangri undanfarna áratugi, sérstaklega í grunnskólum. Finnskir skólar virðast þjóna nemendum sínum vel óháð fjölskyldumynstri, efnahagslegum bakgrunni og/eða getu. Þær hægfara breytingar sem átt hafa sér stað í finnska skólakerfinu hafa skilað sér í árangri á heimsmælikvarða og hefur það vakið forvitni heimsbyggðarinnar á því hvað það er sem Finnar gera rétt. Væri ekki rétt fyrir okkur að skoða það mál nánar?