148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um lýðháskóla, sem mætti allt eins kalla einfaldlega lýðskóla. Það er hlutur sem hægt er að velta fyrir sér.

Ekki alls fyrir löngu var ég stödd á Flateyri á aðalfundi þeirra sem eru að koma merkilegu átaki af stað, lýðháskóla á Flateyri. Mig langar að segja í ljósi þeirrar umræðu sem við áttum áðan varðandi dræman lesskilning í íslenska skólakerfinu sem leiðir til mikils brottfallsvanda, að lýðskólar gætu að einhverju leyti komið til móts við það vandamál. Þá er mikilvægt að fá sýn hæstv. ráðherra á því mikilvæga starfi.

Mig langar að fá að vita hvort hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að á Norðurlöndunum, ekki síst í Danmörku, á sér stað mjög blómlegt starf í mjög fjölbreyttum lýðskólum. Þar eru hátt í 80 skólar, íþrótta-, menningar-, verk- og iðngreinalýðskólar o.s.frv. Ríkisvaldið í Danmörku styður vel við þá og þannig er komið til móts við mjög fjölbreytta og mismunandi einstaklinga sem ekki hafa náð að finna sig í dönsku skólakerfi. En þetta hefur líka stuðlað að því að þessir nemendur hafi komið aftur í skóla. Það er bein fylgni á milli þeirra sem farið hafa í lýðskóla og þeirra sem hafa síðan sótt sér til viðbótarmenntun og þekkingu. Það er eftirsóknarvert fyrir hvert samfélag.

Lýðháskólanum á Flateyri voru ætlaðar 15 millj. kr. við vinnslu fjárlaga 2017. Það var sett í safnliðinn hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og úthlutaði forveri ráðherra í starfi, Kristján Þór Júlíusson 5 millj. kr. til verkefnisins sem rennur til lýðháskólans á Flateyri og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Mig langar til að vita hver sé fyrirætlan ráðherra varðandi fjárhagslegan stuðning við þennan skóla á Flateyri, en líka LungA, sem er á Austurlandi. Við vitum að af hálfu Ungmennafélags Íslands er í bígerð að koma upp lýðskóla í íþróttum á Laugarvatni, en Flateyri er samt komin lengra. Ég tel mikilvægt annars vegar að fá heildarsýn og stefnu ráðherra í þessum málaflokki og síðan að fá að vita hvernig ráðherra hyggst styðja við Flateyri. Er hugsanlegt að lýðháskólinn á Flateyri fái aukinn stuðning, aukið fjármagn sem var eyrnamerkt sérstaklega af hálfu fjárlaganefndar til þessa verkefnis?

Mun hæstv. ráðherra hafa frumkvæði að samvinnu við LungA og Flateyri í tengslum við stofnun þessara skóla, og frumkvæði að því að koma þessum málum í skýrari og skarpari farveg? Það er óvissan, sem er vond (Forseti hringir.) fyrir svona mikilvægar stofnanir, ekki síst fyrir brothættar (Forseti hringir.) byggðir eins og Flateyri. Það myndi skipta gríðarlega miklu máli að koma upp öflugum grunni fyrir lýðháskólann, ekki bara fyrir nærsamfélagið á Flateyri, heldur ekki síður fyrir samfélagið í heild, að sjá að við höfum mismunandi farvegi fyrir (Forseti hringir.) mismunandi þarfir í samfélaginu innan skólakerfisins.