148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

heilbrigðisáætlun.

196. mál
[17:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á 147. löggjafarþingi var lögð fram þingsályktunartillaga sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir var 1. flutningsmaður að. Tillagan var um að fela þáverandi heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Sú þingsályktunartillaga var samþykkt á Alþingi í maí á síðasta ári.

Vart þarf að taka fram hve mikilvægt er að hefja stefnumótun í svo mikilvægum málaflokki sem heilbrigðismálin eru. Það er mikilvægt fyrir bæði lýðheilsu og bætta heilbrigðisþjónustu og sem forsenda fyrir góðri fjármálaáætlun sem við viljum að haldi.

Í framangreindri þingsályktunartillögu var lagt til að í þeirri áætlun yrði m.a. tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli byggðarlaga. Jafnframt yrði tekið tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða, svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt tekið tillit til sóknartækifæra, hvort sóknarfæri séu í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með álagi á Landspítala.

Því langar mig til að grennslast fyrir um hvernig vinnu miði við gerð heilbrigðisáætlunar og legg því þessa fyrirspurn fram til hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, í eftirfarandi spurningum.

1. Hver er tímarammi ráðherra við gerð heilbrigðisáætlunar og við hverja verður haft samráð við áætlanagerðina?

2. Er skilgreint í heilbrigðisáætlun hvaða þjónustu Landspítalinn eigi að veita, hvaða þjónustu heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eigi að veita og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að sinna?

3. Er tekið tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða á milli byggðarlaga í heilbrigðisáætlun?

4. Er tekið tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða og aðgangs að sjúkraflugi í heilbrigðisáætlun?

5. Er skoðað við gerð heilbrigðisáætlunar hvort hægt sé að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni til að létta álagi af Landspítalanum?

6. Koma fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið að gerð heilbrigðisáætlunar?