148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

heilbrigðisáætlun.

196. mál
[17:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Fyrir þó nokkru síðan spurði ég þáverandi landlækni, Birgi Jakobsson, hver forgangsröðunin væri til þess að endurreisa heilbrigðiskerfið, hvaða þrjú atriði hann myndi setja í forgang. Hann nefndi fyrst, og ég hef nefnt það ítrekað síðan, heilsugæsluna úti á landsbyggðinni, sérfræðiþjónustu úti á landsbyggðinni og talaði um að hægt væri að gera það í gegnum Landspítalann — maður fær það inn á Landspítalann með samningi um að spítalinn sinni landsbyggðinni — og svo að tryggja rekstrargrundvöll fyrir Landspítalann. Nú er þessi sami maður, Birgir Jakobsson, orðinn aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur, hæstv. heilbrigðisráðherra, (Gripið fram í: Verðandi.) — verðandi. Þannig að ég er mjög bjartsýnn á framtíðina. Sami maður benti mér á að drög að heilbrigðisstefnu væru tilbúin, þannig að það er aðili sem vill klára þessa heilbrigðisstefnu, að við fáum heildstæða mynd af því hvernig heilbrigðiskerfi við ætlum að reka og getum farið að vísa í hana til þess að kalla eftir fjármögnun til þess að tryggja að við séum að sinna þeirri (Forseti hringir.) þjónustu sem við eigum að sinna.

Við eigum að styðja heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) í þessu efni. Við eigum að styðja aðstoðarmanninn við að klára þetta dæmi þannig að peningarnir rati þangað sem við viljum að þeir rati. (Forseti hringir.) Það er það sem ég mun gera. Ég er mjög bjartsýnn á framtíð heilbrigðiskerfisins undir leiðsögn þeirra.