148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ungmenni frá Marokkó, Houssain Basaroi að nafni, kom til landsins í leit að lífi árið 2016. Hann drýgði tvo glæpi sem að mati íslenskra stjórnvalda voru nægileg ástæða til að setja hann í fangelsi á sérstökum gangi þar sem kynferðisglæpamenn eru geymdir. Þegar hann fékk að fara út undir ferskt loft var hann barinn til óbóta af öðrum föngum án þess að nokkur lyfti fingri honum til varnar eða verndar.

Fyrri glæpur hans var sá, að mati stjórnvalda, að segjast yngri en hann væri, ekki 16 ára heldur 18 ára, og þar með ekki barn, og ætti þar með ekki rétt á íslenskri mannúð. Hinn glæpurinn sem þótti kalla á vistun á versta stað sem Ísland gat fundið honum var að reyna að flýja land. Hann þykist vera barn en er það ekki; hann reynir að bjarga sér á flótta en er ekki með bréf upp á að það megi. Fyrir þetta tvennt skal hann fá að borga.

Íslensk réttvísi, íslensk mannúð.

Heimurinn er fullur af fólki á flótta, nauðleitarmönnum. Brotabrot af brotabroti brotabrotabrotabrots kann að koma hingað til lands í leit að skjóli og möguleikum til að skapa sér líf. Við teljum okkur ekki geta veitt nema brotabrotabroti af því brotabroti hæli, og þykir hverjum sitt um það. En við getum vonandi séð til þess að mál á borð við þetta muni aldrei endurtaka sig. Mannréttindi eru altæk og ná meira að segja til þeirra (Forseti hringir.) sem ljúga um aldur til að bjarga sér og laumast í skip á vit nýrra landa og jafnvel nýrra tækifæra hér á okkar stóru jörð.