148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Almennar leikreglur, segir hv. þingmaður. Ég er alveg á því að almennar leikreglur eigi að hafa í heiðri þegar við stofnum til atvinnustarfsemi. Á árum mínum áður í atvinnuveganefnd kom ég að mörgum málum sem voru einmitt til þess að lipra til fyrir mönnum sem vildu hasla sér völl, þó íhaldssamur sé og á móti frjálsri samkeppni eins og hv. þingmaður álítur.

Það er hins vegar önnur regla sem ég hef líka í heiðri, það er jafnræðisregla stjórnsýslulaga. Það er þess vegna sem ég er á móti því að inn í einhverja tilgreinda atvinnugrein, skiptir ekki máli hvort það er þessi atvinnugrein eða önnur, komi nýir aðilar og hasli sér völl á markaði þar sem búið er að setja öðrum sem sitja fyrir ákveðnar reglur og ákveðnar kröfur og að það sé fallið frá eða slakað á þeim kröfum til þess að gera nýjum hópi, hver sem hann er, kleift að koma til starfa í viðkomandi grein.

Ég sé ekki betur en ef við gerum það séum við jafnvel að brjóta þessa reglu sem stjórnsýslulögin setja okkur.

Svo er það annað. Það er svört atvinnustarfsemi víða annars staðar. Svo má böl bæta að benda á annað verra, sagði meistarinn í kvæði, en það er ekki lausnin hér. Ég get fullvissað hv. þingmann um að innan skamms, ef hæstv. forseti leyfir, mun fara hér fram sérstök umræða sem ég hef beðið um sem varðar tollgæsluna. Þar mun hv. þingmaður komast að því hvað sá sem hér stendur vill gera til að reyna að uppræta skattsvik og til að reyna að bæta innheimtu gjalda ríkissjóðs þegar álagðra. Ég hlakka til þeirrar umræðu við hv. þingmann jafnvel um það.

En ég get líka tekið undir það með honum, og kem kannski að því í seinna svari mínu, um atvinnugreinarnar,(Forseti hringir.) þar sem menn sem brotið hafa lög nýlega eða lengra í burtu hafa haslað sér völl að nýju. Það eru ákveðnar atvinnugreinar, hv. þingmaður, sem ég myndi gjarnan vilja takmarka aðgang að vegna þess að menn hafi áður brotið af sér með einhverjum hætti.