148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:17]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir. Mér líður pínulítið eins og ég eigi að biðjast afsökunar á því að hafa haft textann með þessu móti og gert hv. þingmann sammála þeim sem hann er búinn að lýsa sig sammála næstum því gegn eigin vilja. En það er nú bara þannig að ég er ekki sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um að þetta sé nákvæmlega tilgangurinn.

Það stendur hérna „hið síðastnefnda“, og þá er verið að vísa til þess að fella niður þá skyldu af hafa löggilta gjaldmæla, og síðan kemur „er lykilþáttur í því að opna íslenskan markað fyrir þjónustu sem rutt hefur sér til rúms erlendis hjá fyrirtækjum á borð við Uber og Lyft“. Það eru mörg önnur fyrirtæki. Við erum fyrst og fremst að tala um að nýta þessa tækni.

Uber og Lyft eru engir aufúsugestir á þennan markað hér eins og þeir hafa hagað sér og orðið uppvísir að víða. Þeir hafa brotið ákveðnar reglur sem koma ekkert höftum á leigubílamarkaði við. Þeir hafa ekki uppfyllt skyldur um opinberan rekstur, það er reyndar mismunandi eftir löndum.

Það verður allt of oft þannig að þegar verið er að tala um einhverjar breytingar fer umræðan að snúast um einstaka fyrirtæki og ef til vill berum við einhverja sök með því að hafa nefnt akkúrat þessi fyrirtæki. Það var fyrst og fremst gert til þess að upplýsa hvað við vorum að tala um, af því að flestir þekkja snjallsímaforritin sem þessi fyrirtæki nota. Þau eru mjög þekkt. Fyrirtækin eru aukaatriði í þessu. Atriðið er að opna þennan markað þannig að sé hægt að nota þessa tækni líka.

Af því að hv. þm. Brynjar Níelssonar vísar í orð hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar þá ætla ég að leyfa mér að gera það líka, en hann sagði í sinni ræðu áðan að við þyrftum ekki að elta tækniþróunina, hún réði ekki, við hér réðum því hvernig framtíðin yrði, einhvern veginn þannig var orðalagið. Ég held að þarna sé millivegur. Ég held að við getum akkúrat ekki ráðið því með lagasetningu hvernig framtíðin verður og litið algerlega fram hjá þessum tæknibreytingum. Þá lendum við með hálfa þjóðina inn á ólöglegri Facebook-síðu að nota sér þá (Forseti hringir.) tækni. En ég hef kannski misskilið hv. þingmann.

Spurningin var: (Forseti hringir.) Ef við erum sammála um þann skilning að í þessari setningu vorum við að tala um þessa tækni, (Forseti hringir.) líður hv. þingmanni betur?