148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[18:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru fyrir að kynna fyrir okkur þetta frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum. Ég velti fyrir mér hvers vegna eingöngu er fjallað um að fella 95. gr. brott. Nú eru önnur ákvæði í þessum lögum sem vekja líka athygli þess þingmanns sem hér stendur, t.d. 94. gr. og ekki síður 97. gr. hegningarlaga.

Í 94. gr. er vísað til kafla hegningarlaga er varða manndráp, frelsissviptingu og ærumeiðingar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef verknaði, sem refsing er lögð við í XXIII., XXIV. eða XXV. kafla laga þessara, er beint að þjóðhöfðingja erlends ríkis eða sendimönnum þess hér á landi, má auka refsingu þá, sem við brotinu liggur, þannig að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.“

Það má velta fyrir sér hvort þetta sé ákvæði sem er eðlilegt í nútímanum, að þarna sé sérstaklega boðið upp á að viðbótarrefsing sé við svona alvarlegum brotum ef þau beinast að þjóðhöfðingja eða sendimönnum annars ríkis.

Svo velti ég líka fyrir mér hvort þeir sem flytja þetta ágæta frumvarp hafi velt fyrir sér ákvæði 97. gr., er varðar það að ráðherra skuli hlutast til um þetta mál. Ég kem kannski betur inn á það í seinna andsvari.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að ávallt skal ávarpa eða minnast á aðra þingmenn með fullu nafni.)