148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég vil fagna þessu frumvarpi og lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við innihald þess og efni. Valdhafar hafa löngum haft tilhneigingu til að beita valdi sínu til að takmarka tjáningu og málfrelsi almennra borgara. Þetta frumvarp er eitt skref af mörgum sem til þarf svo við fáum notið raunverulegs tjáningarfrelsis hér á Fróni.

Þó eru skrefin fjölmörg sem komið hafa á undan. Árið 1991 mátti finna þessi orð í almennum hegningarlögum, með leyfi forseta:

„Hver, sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönnuð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt.“

Blaðamaðurinn Þorgeir Þorgeirson var ákærður og sakfelldur í Hæstarétti á grundvelli þessa ákvæðis, þá 108. gr. almennra hegningarlaga, árið 1987. Þorgeir hafði unnið sér það til saka að rita tvær blaðagreinar um lögregluofbeldi og kallaði lögregluna m.a. einkennisklædd villidýr og kallaði eftir því að sett yrði á fót sjálfstæð eftirlitsstofnun með störfum lögreglu, nota bene, eitthvað sem enn þá vantar.

Árið 1992 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að sakfellingin væri ekki nauðsynleg í lýðræðisríki og dæmi íslenska ríkið brotlegt gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Margir síðari dómar Mannréttindadómstólsins hafa raunar komist að þeirri niðurstöðu að opinberir starfsmenn og persónur ættu vegna stöðu sinnar frekar að eiga von á óvæginni umfjöllun og stórum, jafnvel ósanngjörnum, óþægilegum eða ýktum ummælum um sig og sín störf en hinn almenni borgari. Það væri því óeðlilegt að þeir nytu sérstakrar verndar frá því að vera móðgaðir, umfram aðra.

Þetta kemur m.a. fram í dómi Mannréttindadómstósins í máli Le Monde gegn Frakklandi sem minnst er á í greinargerð þessa frumvarps.

Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli Mannréttindadómstólsins má enn finna sérstakt ákvæði í hegningarlögum um aukna vernd, æru erlendra þjóðhöfðingja, hér á landi, umfram aðra einstaklinga. Þetta er ákvæði sem hefur veruleg hamlandi áhrif á opinbera umræðu um persónur sem sannarlega eru opinberar og mega því eiga von á að almenningur hér á landi sem og annars staðar tjái sig ansi frjálslega um þá og þeirra störf. Þetta er ákvæði sem lagt er til í fyrirliggjandi frumvarpi að fjarlægja úr almennum hegningarlögum. Ákvæðið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki … skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“ — Það er meira að segja hægt að hækka það upp í sex ár, séu sakir miklar. —

„Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.“

Þetta hljóðar svona, þrátt fyrir að í dómnum í máli Le Monde gegn Frakklandi hafi komið fram að ekki væri tilefni til þess að þjóðhöfðingjar nytu sérstakrar verndar þegar kæmi að æru þeirra.

Svona ákvæði hafa kælingaráhrif á opinbera umræðu og valda sjálfsritskoðun þeirra sem lýsa vilja skoðunum sínum á verkum og persónu erlendra þjóðhöfðingja. Tökum tiltölulega nýlegt dæmi. Þann 21. janúar 2017 sagði sú sem hér stendur, með leyfi forseta:

„Ég hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti.“

Næsta dag lét hv. þm. Óli Björn Kárason eftirfarandi orð falla í morgunútvarpi RÚV, með leyfi forseta:

„Það finnst mér of langt gengið. Við getum verið ósammála öllum því sem hann segir og öllu því sem hann gerir. En við köllum ekki þjóðhöfðingja Bandaríkjanna, lýðræðislega kjörinn forseta, fasista.“

Þessi orð mín voru látin falla í ræðustól Alþingis og naut ég því stjórnarskrárvarinnar þinghelgi gagnvart því að þurfa að sæta afleiðingum fyrir þessi ummæli mín samkvæmt áðurnefndri 95. gr. almennra hegningarlaga. Það má með sanni segja að ég hafi á opinberum vettvangi viðhaft ummæli sem mörgum þótti smánandi um æðsta ráðamann bandarísku þjóðarinnar. En við erum þó ekki nema 63 sem njótum þessarar þinghelgi hverju sinni. Því má ætla að allir aðrir sem hefðu látið þessi ummæli falla á opinberum vettvangi í íslenskri lögsögu hefðu mátt eiga von á að vera sóttir til saka fyrir að lýsa svipaðri afstöðu og minni.

Auðvitað væri saksókn á þessum grunni dæmi um óhóflega valdbeitingu hins opinbera gagnvart skoðunum hins almenna borgara á valdafólki annarra landa. Það að þessi lög séu til og þeim megi beita hefur kælandi áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Þau valda sjálfsritskoðun og þeim verður að breyta.

Áðan talaði ég um að afnám 95. gr. almennra hegningarlaga væri skref í rétta átt til að tryggja raunverulegt tjáningarfrelsi hér á landi, en þau eru ófá skrefin sem við eigum eftir að taka til að svo megi vera því að tjáningarfrelsinu á Íslandi eru margar skorður settar, bæði með lögum og annarri valdbeitingu ráðandi afla. Fyrst ber að nefna lögbann sem sett var á Stundina vegna umfjöllunar hennar um vafasöm fjármálaviðskipti hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar í aðdraganda bankahrunsins meðan hann sat sem þingmaður. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp sinn dóm um að lögbannið brjóti á stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningar, hafi haft óeðlileg áhrif á frjálsar og upplýstar kosningar og grafi undan frjálsri tjáningu fjölmiðla. Þó er lögbannið enn í gildi og hefur í sjálfu sér kælandi áhrif á opinbera umræðu. Raunar mætti segja að áhrifin séu við frostmark þar sem Stundin getur ekki miðlað umræddum upplýsingum enn þann dag í dag og óvíst hvenær það má samkvæmt núverandi valdakerfi tjáningar.

Píratar hafa mælt fyrir frumvarpi til að taka ákvörðunarvald um lögbann á umfjöllun fjölmiðla úr höndum sýslumanna, sem sýnt hafa að þeir taka til engrar athugunar hvort skilyrði til skerðingar tjáningar séu uppfyllt eður ei, og að við setjum það í hendur dómstóla sem þó hafa á undanförnum árum staðið sig betur og betur í vernd tjáningarfrelsisins á Íslandi, m.a. í kjölfar ítrekaðra dóma og ávirðinga Mannréttindadómstóls Evrópu. Málið er í vinnslu á nefndasviði Alþingis og ég hvet alla þingmenn til að greiða leið frumvarpsins í gegnum þingið og veita því stuðning sinn, tjáningarfrelsinu til heilla.

Við vitum líka, frú forseti, að núverandi lagaumhverfi gerir að verkum að fjölmiðlar þurfa oft á tíðum að eyða stórum fjárhæðum í málskostnað í meiðyrðamálum sem höfðuð eru af fjársterkum aðilum vegna ummæla eða fréttaflutnings sem þeim líkar ekki. Tilgangurinn með kæru er langt í frá alltaf sá að vinna málið. Það er jafnvel vitað að málið sé tapað en það er sótt til þess eins að hafa fé af fjölmiðlunum, þreyta þá og refsa þeim fyrir að upplýsa almenning um misgjörninga valdamanna. Ástæðan fyrir því að þetta borgar sig er að það kemur allt of oft fyrir að dómstólar sem dæma í málum felli niður málskostnað og því sitji fjölmiðlarnir uppi með að greiða háan lögfræðikostnað úr eigin vasa þrátt fyrir jafnvel algerlega tilhæfulaus málaferli af hálfu stefnanda. Píratar hyggjast bregðast við nákvæmlega þessari hindrun í vegi tjáningarfrelsisins með framlagningu frumvarpa á allra næstu dögum því að lagaumhverfi sem þetta hefur kælandi áhrif á þjóðfélagsumræðuna og tjáningarfrelsi hér á landi. Fyrr en það verður lagað gildir ekki raunverulegt tjáningarfrelsi.

Þá eru ónefnd þau kælandi áhrif sem annars konar valdbeiting valdafólks og stofnana getur haft á tjáningarfrelsi og opinbera umræðu. Gott dæmi um þetta voru óbeinar hótanir fyrrverandi hv. formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, í garð RÚV þar sem hún gaf í skyn að fréttaflutningur stofnunarinnar sem hafði verið henni á móti skapi gæti haft þær afleiðingar í för með sér að dregið yrði úr fjárheimildum til handa RÚV í næstu fjárlögum. Annað dæmi eru ummæli flokksbróður Vigdísar, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í aðdraganda síðustu kosninga þess efnis að hann væri að undirbúa málsókn á hendur þriggja fjölmiðla vegna umfjöllunar þeirra um fjármál hans og eiginkonu hans í kjölfar birtingar Panama-skjalanna, m.a. vegna þess að hv. þingmaður var ósáttur við að hafa ekki fengið afsökunarbeiðni fyrir umfjöllunina um sig. Hv. þingmaður er fjársterkur maður og á auðvelt með að fara í sams konar mál og aðrir fjársterkir aðilar gera gjarnan þegar þeim mislíkar fréttaflutningur fjölmiðla. Ekki sérlega dulin, sú valdbeiting.

Dæmi um beinar og óbeinar hótanir valdamikilla einstaklinga í garð fjölmiðla, um afleiðingar áframhaldandi upplýsingagjafar til almennings um tiltekin málefni, eru miklu fleiri, frú forseti. Eru þær í sjálfu sér aðför að lýðræðislegum gildum í þjóðfélaginu. Þeim er beinlínis ætlað að hafa kælandi áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Ekki síður kælandi eru áhrifin sem hótanir, skammir og umvandanir valdamikilla aðila geta haft á tjáningu og frelsi almennings í landinu til að tjá hug sinn um samfélag sitt og þá sem þar hafa valdið. Ég minnist t.d. ávirðinga þáverandi formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Brynjars Níelssonar, í garð þeirra einstaklinga sem kölluðu eftir því að birt yrðu nöfn þeirra sem mælt höfðu með uppreist æru Roberts Downeys þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Hvað varðar okkur um það hver það er og hvers vegna? Eina ástæðan er sú að þeir sem hæst láta vilja berja á þeim.“

Ég spyr mig raunar hvort rökstuddur grunur hafi legið að baki þessum ásökunum hv. þingmanns en svona talar valdið til að þagga niður óþægilega umræðu, þagga niður sjálfsagða kröfu almennings um upplýsingar, sjálfsagða þátttöku almennings í opinberri umræðu um samfélag sitt.

Loks hefur það líka kælandi áhrif þegar lögmenn og sitjandi þingmenn ýja að því að þeir stundi ærumeiðingar sem segja að uppi sé rökstuddur grunur um að opinberar persónur hafi framið refsivert athæfi, rökstuddur grunur til að rannsaka hvort refsivert athæfi hafi átt sér stað, að tilefni sé til rannsókna. Þessi orð voru látin falla í ákveðnu samhengi um að lögin í landinu gildi ekki jafnt fyrir alla og er einmitt framlagning þessa frumvarps ágætisdæmi um hvernig æðstu valdamenn heimsins njóta betri réttarverndar en hinn almenni borgari. Þingflokksformaður stærsta stjórnmálaflokks á landinu kallar eftir því að sú sem hér stendur verði dregin til ábyrgðar af stjórn þingsins fyrir að taka þátt í almennri stjórnmálaumræðu um málefni sem sannarlega hafa oft verið rædd áður, sem eiga fullkominn rétt á sér og eru í samhengi hlutanna fullkomlega í samræmi við dómaframkvæmd hér á landi, þvert á það sem þessir hv. þingmenn hafa gefið í skyn um ummæli mín í þjóðmálaþættinum Silfrinu í fyrradag. Svona má ekki segja, segja þeir í kór, og tala undir rós um afleiðingar ummælanna.

Þetta hefur kælandi áhrif. Því ef ég á ekki að fá að tjá mig frjálslega um samfélagið sem ég tek þátt í að móta á þessum vettvangi, án þess að sitja undir duldum og ekki svo duldum hótunum um afleiðingar orða minna, hvernig á almenningur að þora að tjá sig opinberlega um þá sem valdið hafa án ótta við afleiðingar orða sinna? Þeir sem njóta ekki þinghelgi? Svarið er einfalt: Óttinn er til staðar og hann er ólíðandi.