148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

214. mál
[19:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að fara örfáum orðum um þetta góða frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja í námunda við Ísland, þ.e. í íslenskri land- og lofthelgi innan tólf mílna. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi og get tæplega dulið aðdáun mína á því eljufólki sem vekur athygli á þeim voðabúnaði sem kjarnorkan getur verið þótt hún sé vissulega líka nýtt í friðsamlegum tilgangi, ekki megum við gleyma því.

Ég vil líka nýta þetta tækifæri til að vekja athygli á tillögu til þingsályktunar sem hér var flutt fyrir nokkrum dögum. Flutningsmaður var hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir; það mál ber að sama brunni, tillaga um að við gerumst aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Hv. þingmaður gat þess í sinni ágætu yfirferð að þetta væri ekki alveg í fyrsta sinn sem mælt væri fyrir þessu frumvarpi eða viðlíka. Þetta væri fjórtánda sinn. Það má furðulegt heita að þessi friðsama þjóð skuli ekki leggjast meira á árarnar þarna. Íslendingar eru friðsamir almennt þó að ýmsar krytur beri nú fyrir annað veifið, aðallega stjórnleysi innbyrðis.

Við höfum rætt þetta ítrekað. Þetta hefur verið á dagskrá sveitarfélaga. Það merkilega er að langflest sveitarfélög í landinu hafa undirgengist samkomulag af þessu tagi. Ég held að þjóðir heimsins, ef við getum sagt sem svo, fólkið í veröldinni, hafi eins og við, hvert og eitt okkar, óttast þennan búnað og viljað tóna þetta niður og fjarlægja þennan búnað úr safni þjóðanna. En það eru gjarnan þjóðarleiðtogar eða stjórnvöld hinna ýmsu þjóða sem ekki gefa eftir. Þetta er hluti af þessu alræmda vopnaskaki þjóðanna. Svona erum við enn frumstæð í samskiptum okkar.

Þó hafa heilar álfur eins og Afríka, eins og kemur fram í ágætri greinargerð, fallist á og gengist undir þetta samkomulag, það eru mörg ár síðan. Þessum vilja vex fiskur um hrygg, það eru fleiri að leggjast á þessar árar, þeir sem berjast fyrir friði, berjast fyrir því að tóna niður vopnaskakið, og þessi illyrmislegu vopn. Ég nefni ICAN, alþjóðleg samtök, eins og kom fram í tillögu til þingsályktunar frá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, sem hafa barist fyrir því að jarðsprengjum, sýklavopnum og eiturefnahernaði væri útrýmt. Þessir hópar, þessi öfl, njóta æ meiri virðingar og trausts. Þessi hópur, þessi alþjóðlegi hópur, hampar nú friðarverðlaunum Nóbels árið 2017.

Ég tek undir með hv. þingmanni og vonast til þess að þetta frumvarp nái sínum fulla þroska hér í þinginu, fái umfjöllun í nefndum og komi til umræðu aftur og verði samþykkt. Við erum með því að senda skilaboð til heimsins, skilaboð til samtímans, skilaboð til okkar þjóðar. Við erum líka að senda skilaboð til barnanna okkar.

Þess vegna styð ég heils hugar þetta frumvarp.