148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ítrekað að undanförnu höfum við fengið fréttir af því að íslensk stjórnsýsla hefur verið á sjálfstýringu og afgreitt grafalvarlega hluti án athugasemda, hunsað mikilvægar starfsreglur og jafnvel látið eins og lög og reglugerðir hafi enga merkingu eða jafnvel bara þá merkingu sem hentar hverju sinni.

Í gærkvöldi var upplýst um annað slíkt tilfelli, nánar tiltekið aðild íslensks flugfélags og um leið íslenskra stjórnvalda að stórfelldum vopnaflutningum til Sádi-Arabíu, þaðan sem vopnin fóru í hendur hryðjuverkamanna. Við vitum þetta vegna þess að um var að ræða vopn, framleidd í Austur-Evrópu en sádi-arabíski herinn notast eingöngu við bandarískt vopnakerfi. Við vitum það jafnframt vegna þess að raðnúmer vopna sem voru í þessum sendingum hafa fundist á notuðum vopnum víða í Sýrlandi.

Herra forseti. Þetta voru ekki nýjar upplýsingar fyrir mér enda tók ég þátt í vinnu við þessa rannsókn fyrir u.þ.b. þremur árum síðan og voru þessar upplýsingar allar birtar þá. Áhugaleysið gagnvart birtingu upplýsinganna á sínum tíma var algjört. Viðbrögð í heiminum voru engin við vopnasmygli upp á 1,5 milljarða dollara sem fór fram með fullkominni blessun vestrænna ríkja, oftast nær með undirritun ráðherra hvers ríkis fyrir sig.

Á Íslandi virðist þetta hafa verið afgreitt í kyrrþey, inni á kontór á Samgöngustofu, algjörlega án meðvitundar ráðherra. Ég spyr: Hvernig getur staðið á því að ég hafi haft undir höndum þetta farmbréf meðal annarra fyrir þessum vopnaflutningum frá því árið 2015, sambærileg við þau sem hafa borist Samgöngustofu og hún lagt sína blessun yfir, ef íslensk stjórnvöld hafa borið fyrir sig algjöru þekkingarleysi þar til í gær?

Ég spyr hvort ekki sé orðið tímabært að laga þessa löggjöf, laga þetta regluverk, undirgangast Varsjársamninginn og beita okkur fyrir því af fullri hörku að stöðva vopnaviðskipti í heiminum. Ég spyr umfram allt hvort við séum stolt af framlagi okkar til heimsfriðar þegar hundruð þúsunda jarðsprengna hafa verið flutt með vitund og vilja íslenskra yfirvalda og þær færðar í hendur hryðjuverkamanna?