148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Fréttir bárust af því fyrir nokkrum dögum að drepist hefðu um 53.000 laxar, 160 tonn, þegar sjókví í Tálknafirði gaf sig í óveðri. Upplýsingar þessar lætur fyrirtækið sjálft í té. Ekki virðist möguleiki á að fá þessar upplýsingar staðfestar af opinberum eftirlitsaðilum sem engir eru staðsettir á þessu mikla og vaxandi athafnasvæði fiskeldis. Þetta er algjörlega óásættanlegt og alls ekki í samræmi við vilja heimamanna sem frá upphafi hafa talað fyrir fagmennsku og vel skilgreindu eftirliti.

Það liðu 13 dagar þar til eftirlitsaðilar komust vestur og öllu gaumur gefinn á meðan úr höfuðborginni eða reyndar frá Selfossi. Er þetta sú umgjörð sem við viljum búa þessari nýju og öflugu atvinnugrein? Greinin er ekki óumdeild eins og menn vita. Það er einmitt m.a. vegna umhverfisáhættu og eftirlitsþáttarins.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra hafði lýst því yfir að sviðsstjóri fiskeldis skyldi verða staðsettur á Ísafirði. Nú virðast þau plön að engu orðin og skýringarnar eru kunnuglegar. Það eru ekki til peningar. En þeir dúkka þó upp fyrir sama aðila til starfa í Reykjavík. Hvaða gæðastarf er þarna í gangi? Þetta er fráleit afgreiðsla og stjórnvöld verða að hysja upp um sig buxurnar.

Það verður aldrei sátt um greinina fyrr en stjórnvöld stíga fram og halda utan um uppbygginguna með ábyrgari hætti. Krafan er auðvitað sú að eftirlitsaðili sé alltaf staðsettur á vettvangi, þar sem framleiðslan á sér stað, þar sem hægt er af fagmennsku að greina frá ef eitthvað fer úrskeiðis.

Herra forseti. Þetta er vilji heimamanna. Þeir verða varir við tortryggni og fordóma í garð starfseminnar og vilja vandaða umgjörð á öllum stigum jafnt í framleiðslu og eftirliti. Verklag Hafrannsóknastofnunar virðist í þessu efni hvorki hafa yfirbragð fagmennsku né gæða.