148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg og ég þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur. Ég er sammála mörgu af því sem fram kom í máli hennar.

Ríkisvaldið hefur staðið fyrir átaki undanfarin ár sem kallað hefur verið Brothættar byggðir. Það felst í því að bæta þeim samfélögum það með einhverjum hætti þar sem fólksfækkun hefur orðið. Eitt af þeim sveitarfélögum sem flokkast undir brothættar byggðir er Skaftárhreppur.

Mig langar að segja ykkur frá einu dæmi í Skaftárhreppi um hvernig ríkisvaldið stendur sig í því að koma í veg fyrir að fólki fækki í samfélögum og byggðir brotni.

Á einni ríkisjörð í Skaftárhreppi hófst ábúð árið 1986 og tóku ábúendur jörðina á leigu af ríkinu til tíu ára án allra mannvirkja. Árið 1996 sóttust ábúendur eftir því að jarðir yrðu sameinaðar, þ.e. ríkisjörð sem var við hliðina. Allar nefndir sem komu að þessu máli voru sammála því að það væri gerlegt, en ekkert gerðist. Þetta var árið 1996. Árið 2001 voru ábúendur beðnir um af ríkisvaldinu að sækja aftur um sameiningu jarðanna. Það var gert og samþykktu allar nefndir það.

Eftir að hafa margítrekað að málið yrði klárað kom loksins bréf 2016. Í því bréfi kom fram að ekkert væri því til fyrirstöðu að afgreiða málið og hefði ekki verið síðan 2013. Enn telja þeir þó að skoða þurfi málið betur og enn hefur ekkert gerst 22 árum síðar frá því að fyrst var sótt um sameiningu jarðanna.

Auðvitað er þetta algjörlega óásættanlegt. Ég held að við verðum að setja okkur í spor þessa fólks, bændanna sem búa á ríkisjörðum. Myndum við vilja (Forseti hringir.) að komið væri svona fram við okkur varðandi lifibrauð okkar, (Forseti hringir.) að því væri ekki svarað hvort við gætum haldið áfram búskap, og nú eru liðin 22 ár? Ég vona svo sannarlega að hæstv. fjármálaráðherra taki á þessu máli eins og hann nefndi (Forseti hringir.) hér og ég fagna því.