148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Þetta mál snýst um ákaflega einfaldan hlut á yfirborðinu, skipa á starfshóp til þess að gera áætlun um kostnað og tímasetningar við tiltekið verkefni, sem er að koma íslensku prentmáli í stafrænan búning eins og það heitir. Þetta er sem sagt tillaga um að svara kalli tímans og gera íslenskt prentmál aðgengilegt á því formi sem er fólki handbært á vorum tímum og sem fólk vill nota. Markmiðunum er lýst í greinargerð, að stórauka aðgengi almennings að ritmáli á íslensku og að styðja við það markmið að efla stöðu íslensks máls í stafrænum heimi.

Ég þakka hv. 1. flutningsmanni fyrir að sýna mér þann heiður að bjóða mér að vera með á þessari þingsályktunartillögu. Ég vil kannski bæta því við að hún er studd afar vandaðri greinargerð sem er rituð af mikilli þekkingu og yfirsýn um málið.

Frú forseti. Íslenskan á í vök að verjast á vorum tímum. Það þarf að halda vel á málum til að verja hana fyrir þeirri ágjöf sem hún verður fyrir og ekki bara verja hana, heldur að styrkja hana og efla á alla lund. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa fjallað um þau forréttindi sem það eru að geta notið íslenskra bókmennta á frummálinu — þar búum við Íslendingar við alveg sérstakar aðstæður — og ekki bara fornbókmennta, heldur bókmennta fyrr og síðar.

Íslenska hefur ákveðna sérstöðu í veröldinni fyrir það að hún hefur haldist giska mikið í því málfræðilega formi sem hún hefur í verið frá því menn komu fyrst hingað til landsins. Hún er mjög litrík og það eru hlutir sem maður á erfitt með að sjá fyrir sér að hægt sé að segja á öðru máli. Mér verður hugsað til afar vandaðra þýðinga, á Kristnihaldinu svo að ég taki bara eitt lítið dæmi, og eftir að hafa litið á þýðingar, mjög góðar, á Norðurlandamálum og ensku áttar maður sig á því að í þessum bókum eru sagðir hlutir á okkar tungu sem eru vandþýddir yfir á aðrar tungur.

Það er mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga og fyrir veröldina að íslenskan lifi af, ef ég má leyfa mér að orða það svo. Ég hef leyft mér að segja hér í þessum ræðustól að það væri óskandi að við ættum núna Fjölnismenn og Rasmus Kristján Rask. En við verðum bara að gera sem best við getum. Hér er ágætt framlag í þá átt.

Það er mikið efni til á veraldarvefnum sem hefur verið sett þar í stafrænan búning. Þar nægir til að mynda að nefna, svo að eitt lítið dæmi sé tekið, vefinn timarit.is, en við vitum að þar er mjög mikið ógert. Þegar ég fletti síðast upp á Skírni, sem er tímarit Hins íslenska bókmenntafélags og er elsta bókmenntatímarit á Norðurlöndum, sá ég að síðasta heftið sem hefur ratað þar inn er heftið frá árinu 1940. Það er margt ógert.

Ég leyfi mér að vona að vel takist til í þessu máli hér varðandi skipan þessa starfshóps og að honum auðnist að kynna niðurstöður sínar fyrir fullveldisdaginn 1. desember 1918. Þetta mál má sem best vera einn af mörgum þáttum sem stuðla að því að fagna þeim merka áfanga í sögu þjóðarinnar sem við auðvitað gerum á þessu ári. Ég get leyft mér að taka undir með fyrri ræðumanni, hv. 10. þm. Reykv. s., sem er í sömu aðstöðu og ég, að vera í nefnd til að halda upp á þetta fullveldi. Ég legg sömuleiðis áherslu á að þetta mál er í góðu samhengi við þær fyrirætlanir sem þar eru uppi.

Frú forseti. Það er ekki úr vegi að rifja upp orð skáldsins: „Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein.“ Við erum hér að fjalla um eina aðgerð af mörgum sem þarf til að verja, efla og styrkja okkar tungu. Við þekkjum það að okkar tunga hefur haldist í gegnum aldanna rás. Ég leyfi mér að vitna hér til hinnar merku ritgerðar Sigurðar Nordals um samhengið í íslenskum bókmenntum sem menn þekkja hér. Að öllu þessu sögðu langar mig til að ítreka þakkir mínar til 1. flutningsmanns fyrir árvekni hans og dugnað í þessu máli eins og sést af þeim góða undirbúningi sem lagður er til grundvallar. Ég vænti þess að málið fái góðan framgang.