148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

bankakerfið.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vænti þess að þessi áform verði yfirfarin í stjórn bankans þar sem Bankasýsla ríkisins skipar fulltrúa ríkisins. Hins vegar kannast ég ekki við að Landsbankinn sé kominn á sölu, eins og mér fannst hv. þingmaður gefa í skyn í fyrirspurn sinni. Ég tel enga ástæðu til þess að fara að selja hluti í Landsbankanum á næstunni en tel hins vegar mikilvægt (Gripið fram í.) að við horfum til þess við endurskipulagningu fjármálakerfisins að fjármálakerfið mun breytast. Við hv. þingmaður erum sammála um það og við eigum eftir að sjá eðlisbreytingar á fjármálastarfsemi. Ég vænti þess að innlendir bankar taki mið af því þegar þeir gera áætlanir sínar, hvort sem það er um húsbyggingar eða aðra starfsemi, að við eigum eftir að sjá miklar tæknibreytingar hafa áhrif á starfsemi innlendra banka sem væntanlega munu hafa áhrif á áform eins og hv. þingmaður nefnir hér.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver umræðan hefur verið í stjórn bankans um þessi mál, en það hlýtur að hafa komið inn í þá umræðu.