148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:35]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér hefur mikið verið rætt um þann asa sem mun verða á þinginu í vor, þegar og ef einhver mál koma frá ríkisstjórninni. Mig langar til þess að spyrja, og það hefði verið gott ef ráðherrar hefðu leyft … [Háreysti í hliðarherbergi.]

(Forseti (SJS): Forseti vill biðja þingverði um að skikka … Og biðja um hljóð í hliðarsölum. Forseti biður hv. þingmann um að halda áfram og biður hann afsökunar á trufluninni.)

Það hefði verið til mikilla bóta ef ráðherrarnir hefðu setið hér til þess að upplýsa þingmenn, sem vekja hér máls á þessu athafnaleysi ríkisstjórnarinnar, hvort yfirleitt væri verið að vinna mál í ráðuneytunum.

Ef svo er, hvert er þá ástandið inni í ráðuneytunum, virðulegur forseti? (LE: Forsætisráðherra er ekki í …) Hvert er ástandið þar? Hvernig getum við tryggt að faglega sé staðið að lagasetningu á Íslandi, sem er fyrst og fremst mjög nauðsynlegt þegar ekki er hægt að tryggja það hér á þingi í vor, þegar þessi frumvörp koma loksins? (Forseti hringir.)

Ég legg til að forsætisráðherra setjist nú niður með formönnum (Forseti hringir.) annarra flokka á þingi og upplýsi um hvort einhver mál komi, og þá hvaða mál muni ekki koma af þeim sem eru á dagskrá.