148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég orðaði það mjög vísvitandi þannig að ég væri óviss sem er vegna þess að ég á sjálfur í svolitlum vandræðum með þetta.

Ég sé alveg eðlismun á umskurði drengja og því sem núna er bannað og var einhvern tímann kallað umskurður kvenna en er auðvitað limlesting og líkamsárás. Ég sé alveg eðlismun þarna á. Hvort það eigi hins vegar að vera í sömu grein þori ég ekki alveg að fara með. Fyrir utan refsirammann sem ég hef áhyggjur af velti ég fyrir mér hvort þetta eigi meira heima í umræðu um líkamlega friðhelgi intersexbarna sem fæðast. Það er nokkuð sem hefur ekki enn fengið eins mikla umræðu í samfélaginu og það á skilið. Það er ekkert endilega svakalega einföld umræða og á þess vegna ekkert endilega heima í þessu frumvarp eða þetta frumvarp þar. Það eru þannig hlutir sem spila inn í þannig að ég er óviss um það en eins og ég segi og sagði í ræðu minni vona ég að nefndin varpi betra ljósi á það (Forseti hringir.) hvernig lagatæknileg útfærsla væri heppileg. Ég skal koma inn á refsirammann aðeins betur í seinna andsvari.